140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að hér séu gerðar tillögur í góðri trú um að styrkja þingræðið á Íslandi. Ég frábið mér að ég þurfi að verja túlkun á orðum forseta Íslands um þau ákvæði sem hér um ræðir. Það sem ég kalla eftir er að ákvæðin séu það skýr að þau megi ekki misskiljast, en aðalatriðið er þó að við vitum hvað við viljum, íslensk þjóð. Viljum við stjórnskipan eins og ríkir á Norðurlöndunum og hér hefur ríkt frá lýðveldisstofnun með þingbundinni ríkisstjórn, með þingræði, eða viljum við forsetaræði eins og það gerist til að mynda í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Frakklandi? Við þurfum að svara þessari spurningu. Það má ekki vera bæði og eða hvorki né. Það þarf að vera alveg klárt hvora leiðina við ætlum að velja og mitt val er einfalt, það er það sama og hv. þingmanns.