140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Mér finnst afskaplega mikilvægt, frú forseti, að ræða aðeins fyrst um það hvaða og hvers konar rit við erum með í höndunum, þetta hér frá stjórnlagaráði, frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum. Mér finnst stundum talað í ræðustólnum eins og þetta sé óskýrt. Það er eins og við vitum ekki alveg hvaða augum við eigum að líta þetta. Mér finnst sumir tala, svo ég segi það bara hreinskilnislega, eins og þetta sé bara frumvarp úr ráðuneyti, eitthvað sem embættismenn hafi samið í innanríkisráðuneytinu vegna þess að þeir urðu vitni að búsáhaldabyltingunni og ráðherra ákvað að setja eitthvert mál í ferli. Síðan er komið frumvarp eins og þetta sé stjórnarfrumvarp og nú fari það bara í nefnd og við ræðum það. Ef þetta væri svoleiðis væri mjög eðlilegt að við tækjum þetta allt til mjög mikillar skoðunar og jafnvel umbreyttum öllu eins og gerist og gengur þegar stjórnarfrumvörp eru annars vegar.

En þetta er ekki svoleiðis frumvarp sem kemur hérna núna í formi skýrslu. Þetta á rætur sínar að rekja til mjög langvarandi óþreyju Íslendinga, held ég, gagnvart því verkefni sem hefur gengið brösuglega, að endurskoða stjórnarskrána. Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með eitthvað í höndunum sem heitir mögulega stjórnarskrá sem Íslendingar sjálfir hafa búið til. (Gripið fram í: Það er ekki …) Þetta er það. Þetta er í fyrsta skipti sem það gerist. Stjórnarskráin sem við tókum upp 1944 þegar lýðveldið var stofnað var að meginstofni til dönsk og það stóð til strax þá að fara í að skrifa okkar eigin stjórnarskrá. Það hefur bara ekki tekist. Það hefur tekist að endurskrifa einstaka kafla. Vaxandi óþreyja gagnvart því að þetta verkefni ætlaði aldrei að takast gerði það meðal annars að verkum að það var ein stærsta krafan í búsáhaldabyltingunni svokölluðu að þetta yrði gert, að skrifuð yrði stjórnarskrá af Íslendingum sjálfum.

Hér er hugmyndin að henni og hún er sem sagt ekki bara eins og venjulegt stjórnarfrumvarp. Hvað var gert? Nú þurfum við að bera svolitla virðingu, finnst mér, fyrir ferlinu sem við ákváðum að þetta mál færi í. Einn þingmaður sagði áðan: Af hverju völdum við ekki bara slembiúrtak? Það var einmitt gert, það er eitt af því sem var gert. Fyrsta skrefið í ferlinu var að við kölluðum til þúsund Íslendinga, bara einhverja Íslendinga, slembiúrtak úr símaskrá, sem hittust í Laugardalshöll. Þeir sögðu hver öðrum og þjóðinni hver ættu að vera meginleiðarstefin í nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland og mjög margt sem við sjáum í tillögum stjórnlagaráðs er rökstutt einmitt með því að þetta hafi verið rík krafa þjóðfundarins, t.d. áherslan á umhverfisvernd sem er í nýjum mannréttinda- og náttúrukafla. Hún er meðal annars rökstudd með því að það var rík krafa þjóðfundarins um slíka áherslu.

Áhersla á heilbrigðismálin er líka rökstudd með þjóðfundinum sem og áhersla um að Ísland verði mögulega eitt kjördæmi. Við megum ekki gleyma þegar við erum að tala um þetta plagg að það á meðal annars rætur að rekja til þess að þúsund Íslendingar komu saman og sögðu hver ættu að vera megingildin. Við þurfum einhvern veginn að bera virðingu fyrir því.

Síðan tók við stjórnlaganefnd sem við skipuðum í þessum sal í mikilli sátt eins og bent hefur verið á. Eins og hv. þm. Þór Saari fór yfir áðan var líka mikil gleði með þá afurð sem sú nefnd skilaði, og tillögurnar sem stjórnlagaráð kemur með eru margoft rökstuddar einmitt með því að stjórnlaganefnd hafi lagt það til og rökstutt það, m.a. á grunni þjóðfundarins. Allt er þetta ferli. Þetta ferli var næstum því stöðvað með úrskurði Hæstaréttar og dálítið einkennilegri rökræðu sem fór fram í sölum Alþingis um þann úrskurð þar sem sumir þingmenn vildu draga þá að mínu mati órökréttu ályktun af niðurstöðu Hæstaréttar að það bæri að hætta við þetta ferli. Þeir þingmenn urðu sem betur fer undir. Í niðurstöðu Hæstaréttar fólst engan veginn sú ályktun eða krafa að hætta ætti við þetta ferli og sem betur fer stóð meiri hluti Alþingis í lappirnar og hélt áfram. Ef við hefðum ekki gert það værum við ekki núna í fyrsta skipti í lýðveldissögunni með drög að stjórnarskrá sem er skrifuð af okkur sjálfum. Það eru stórtíðindi og ég fagna því að við séum með þau fyrir framan okkur.

Hvað þýðir það að ætla sér að bera virðingu fyrir öllu þessu ferli? Við hér, meiri hluti Alþingis, horfðumst í augu við að það hafði gengið brösuglega að skrifa þjóðinni stjórnarskrá á þessum vettvangi. Við útvistuðum verkefninu á lýðræðislegan hátt sem er held ég öðrum þjóðum til eftirbreytni og við eigum að gera það í fleiri málum hér eftir. Við gerðum þetta og nú reynir á hvernig við ætlum að bera virðingu fyrir þessu. Það veldur mér áhyggjum að til dæmis sumir þingmenn virðist ekki skilja gildi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður auðvitað svo að vera en mér finnst til dæmis mjög mikilvægt í mörgum málum, og sérstaklega í þessu máli, að reyna að komast að því hvað það er sem þjóðin vill. Ef þjóðin segir eitthvað í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hefur það áhrif á mína sannfæringu í því máli vegna þess að ef málið er eins og við erum að ræða hér, stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland, hefur mjög mikil áhrif á mína sannfæringu öll sú leiðbeining sem ég fæ frá þjóðinni sjálfri. Þess vegna á ég í engum vandræðum með að taka það algjörlega alvarlega og láta það hafa áhrif á mína sannfæringu ef það verður endapunkturinn í þessu ferli, eins og ég hef lagt til ásamt öðrum, að þjóðin segi álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég teldi það einfaldlega siðferðilega skyldu mína að fara eftir þeirri niðurstöðu.

Út af því að ferlið hefur verið þetta, við útvistuðum verkefninu, fórum í lýðræðislegt ferli og hér er afurðin komin til okkar, finnst mér við ekki geta farið með þetta á einhvern hátt aftur á byrjunarreit. Það væru líka skelfileg skilaboð sem við sendum þjóðinni. Við vorum ekkert að grínast með þessum þjóðfundi, með stjórnlaganefndinni, með stjórnlagaráðinu. 84 þús. manns kusu í stjórnlagaráð. Við vorum ekkert að grínast með þessu og við þurfum að sýna það núna í verki að við tökum þetta alvarlega. Mér finnst það verða að vera, þetta er ákveðinn galdur og reynir á okkur sem manneskjur í þessu. Við verðum að sýna það að ætlunarverk okkar núna er bara að betrumbæta þetta, reyna að sníða af agnúa ef þeir eru einhverjir, og passa að það séu engar mótsagnir í þessu. Við ætlum ekki að fara með þetta aftur á byrjunarreit eins og freistingin verður mikil til að gera.

Nú ætla ég að fara aðeins yfir það í síðari hluta ræðunnar hvers vegna ég held að þetta verkefni, að reyna bara að betrumbæta málið og koma því síðan til þjóðarinnar, verði erfitt. Í þessu eru mörg möguleg deilumál og það eru alveg mögulega þingmenn hér sem vilja ekki nýja stjórnarskrá, jafnvel þótt hún sé í sátt við þjóðina, ef hún er í andstöðu við vilja þeirra. Það er svolítið ríkt hjá sumum, nákvæmlega eins og hjá markaðnum. Menn vilja frjálsan markað en svo vilja menn stjórna honum. Við umgöngumst líka stundum lýðræðið þannig að menn vilja lýðræði en svo vilja menn stjórna lýðræðinu. Það eru bara þessar hvatir sem við verðum núna að sporna gegn í okkar vinnu. Gagnvart hverju getur mögulega soðið upp úr? Ég held að það séu þó nokkur möguleg ágreiningsefni.

Mannréttindakaflinn fjallar líka um náttúru. Þetta á örugglega eftir að koma mörgum spánskt fyrir sjónir. Þarna er fjallað um umhverfisvernd og jafnvel dýravernd líka. Ég hef lúslesið þetta og ég hef heyrt þau sjónarmið út undan mér í þjóðfélaginu að mörgum komi þetta spánskt fyrir sjónir og menn mundu jafnvel vilja afgreiða þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem einhvers konar vitleysu bara af því að það er verið að taka náttúruvernd inn í mannréttindaákvæði. Þarna er umræða sem ég tel mjög mikilvægt að þjóðin taki taki afstöðu til en að við förum ekki aftur á byrjunarreit hér í þessum sal.

Mér finnst risastórt skref stigið í þessu og ég fagna því gríðarlega að stjórnlagaráð hafi ákveðið að taka þetta hugtak, sjálfbæra þróun og sjálfbæra umgengni um náttúruauðlindir, alvarlega og túlka það sem mannréttindahugtak. Þetta er auðvitað ekkert annað, þetta varðar það að við eigum að virða mannréttindi komandi kynslóða til að njóta þeirra sömu gæða og við njótum núna. Þetta eru mannréttindi og það verður gríðarlega mikilvægt að fara með þessa umræðu til þjóðarinnar. Það að setja náttúruvernd inn í mannréttindi út frá því að sjálfbærnishugtakið er orðið þarna mannréttindatengt hugtak mun líka hafa áhrif á það hvernig við umgöngumst náttúruna. Fyrr í dag fórum við yfir það hvernig stefnan hefur verið hingað til, að virkja og selja á kostnaðarverði. Um leið og komið er inn náttúruverndarákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrár munu menn held ég ekki gera það svo glatt. Þá verður auðvitað að verðleggja þessi gæði sem það sem þau eru, grundvallargæði sem við eigum öll sameiginleg, og tryggja að ef við ætlum að nýta þessi gæði muni komandi kynslóðir njóta góðs af því. Þetta er mikilvægt en mun eflaust standa í einhverjum. Það bjuggust ekki margir við því að það yrði farið svona inn í mannréttindakaflann í þessari vinnu vegna þess að það er nýbúið að endurskoða hann, en mér finnst mjög flott hvernig stjórnlagaráð gerir það. Það er sagt í skýringunum að margir hafi einmitt ekki ætlað sér það en svo þegar stjórnlagaráðið fór að skoða það, fór að hlusta á þjóðfundinn og hitt og þetta komst það að því að það er mjög margt hægt að gera til að endurbæta mannréttindakaflann. Það er eitt af því sem hefur komið út úr vinnunni.

Auðlindir í þjóðareign eru annað nátengt þessari náttúruverndarumræðu sem er þarna mjög rík. Þarna er komin skýr tillaga um að setja inn auðlindir í þjóðareign. Það er einmitt dæmi um mál sem hefur gengið ansi brösuglega að setja í stjórnarskrá á Íslandi. Eins og rakið er í skýringum stjórnlagaráðs hafa verið gerðar fjölmargar atlögur að því verki og við skulum alveg vera með opin augun gagnvart því, mig grunar að einhverjir þingmenn muni líta svo á að hér fari fram slagur um það ákvæði í þessari vinnu og að það þurfi að reyna að stoppa það að auðlindir í þjóðareign fari í stjórnarskrá. Sá slagur hefur áður farið fram í þingsölum og verið ansi hatrammur þannig að það þarf ekki að koma á óvart að hann dúkki upp í þessari umræðu líka og að menn vilji fara með ferlið aftur á byrjunarreit til að koma hugsanlega í veg fyrir að ákvæði um auðlindir í þjóðareign fari inn í stjórnarskrá.

Það er þegar hafið túlkunarstríð sem getur undið upp á sig. Það varðar þá spurningu hvort hér sé verið að boða aukið vald til þingsins eða aukið vald til forsetans. Ég upplifi það satt að segja sem dálítið einkennilegan hræðsluáróður, verð ég eiginlega að segja, af hálfu forseta lýðveldisins þegar hann, einhvern veginn stikkfrír eins og hann er og án þess að við gætum rökrætt við hann, reyndi að halda því fram að það væri sérlega alvarleg tillaga sem stjórnlagaráð væri að leggja fram vegna þess að hún mundi færa honum aukin völd. Við áttum að hugsa þetta allt saman einhvern veginn út frá því. Hann lagði ákveðnar línur og ég er ósáttur við það. Mér finnst einmitt mjög mikilvægt að við nálgumst þetta algjörlega með því að anda með nefinu og skoða tillögurnar mjög vel. Þegar ég ber saman það sem forseti lýðveldisins sagði um það sem hér stendur og síðan textann sjálfan er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig forseti lýðveldisins gat túlkað textann þannig að hann fengi meiri völd og að við þyrftum eitthvað þess vegna að haga okkar vinnu með þetta plagg út frá því.

Förum aðeins yfir það. Ég fór aðeins yfir það í andsvari áðan við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Forseti lýðveldisins heldur því fram að hann fái til dæmis aukin völd við stjórnarmyndun og vísar til þess að samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs muni forseti lýðveldisins gera tillögu um forsætisráðherra eftir samtöl við þingmenn og það er síðan þingið sem kýs um það. Eins og fyrirkomulagið er núna færir forseti stjórnmálaleiðtogum umboð til stjórnarmyndunar og getur fært það umboð hverjum sem er. Þetta vald er tekið af honum. Þetta upplifi ég sem alveg skýr skilaboð frá stjórnlagaráði um að það á að efla þingræðið.

Svo er það málskotsréttur forsetans. Mér fannst forseti lýðveldisins gera dálítið mikið úr því að hér stæði til að hann hefði málskotsréttinn áfram en í tillögum stjórnlagaráðs er umhverfi þessa málskotsréttar algjörlega gerbreytt vegna þess að það eru tilgreindir aðrir farvegir fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin sjálf mun geta safnað undirskriftum og farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tiltekinn fjöldi fer fram á þjóðaratkvæðagreiðslu fer hún fram og þarf ekki forsetann til. Þar af leiðandi verður miklu erfiðara fyrir forsetann að beita sínum málskotsrétti. Ef engin undirskriftasöfnun hefur farið fram, enginn vilji er til að nýta þetta ákvæði sem yrði þá í stjórnarskránni um að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hvaða stöðu hefur þá forsetinn til að beita málskotsréttinum? Hér er í raun verið að minnka vald hans. Mér finnst mjög mikilvægt að við lesum skilmerkilega og vandlega hvað stendur í plagginu áður en við förum í einhvers konar túlkunarstríð á mjög óljósum grunni. Forseti lýðveldisins sagði líka að í þessu fælist sú breyting að ráðherrar mættu ekki leggja fram frumvörp. Þar sagði hann hálfa söguna. Þetta hljómaði eins og að hér eftir yrðu engin stjórnarfrumvörp lögð fram. Það er vitaskuld ekki þannig. Núna er fyrirkomulagið svoleiðis að ráðherrar mega í eigin krafti sem þingmenn leggja fram frumvörp. Það er eiginlega aldrei gert. Frumvörp ráðherra eru eiginlega alltaf, held ég, og hafa alltaf verið stjórnarfrumvörp. Einfaldlega er lagt til í tillögu stjórnlagaráðs að sú heimild sem sjaldan eða aldrei hefur verið notuð af ráðherra í eigin nafni að leggja fram frumvarp verði afnumin. Forseti lýðveldisins gerir mikið úr þessu. Það mátti skilja á honum að hér væri verið að afnema stjórnarfrumvörp, liggur við. Mér finnst það ekki til eftirbreytni, verð ég að segja, og er kannski vísir að því sem koma skal og vísir að þeim hættum sem við verðum að glíma við í þessu verki okkar, að reyna einfaldlega bara að betrumbæta skjalið og koma því síðan til þjóðarinnar. Það munu fara fram alls konar túlkunarstríð og mögulega tilraunir til að þyrla upp alls konar moldryki í málinu.

Ég sagði í upphafi að mér fyndist þetta merkilegt rit, þótt ekki nema væri vegna þess að þetta eru fyrstu drögin að stjórnarskrá sem við sjálf, Íslendingar, höfum skrifað. Það er komið fram. Fyrir þá sem eru íhaldssamir er skaðinn kannski skeður vegna þess að þetta rit verður alltaf mælt gegn stjórnarskránni sem við höfum núna. Núna þurfum við alltaf að spyrja okkur vegna þess að þetta frumvarp er komið fram: Er þetta betra frumvarp en það sem við höfum? Það verður grunnspurningin og við megum aldrei gleyma henni. Er ekki betri mannréttindakafli hér? Er ekki skýrara hlutverk forsetans hér? Er ekki skýrara hlutverk þingsins hér? Frumvarpið er hérna, það er komið og sú stjórnskipun sem við búum við núna, sú stjórnarskrá sem við búum við núna, verður alltaf mæld til samanburðar við þetta frumvarp.