140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:58]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka þingmanninum fyrir góða ræðu þar sem hann velti upp mörgum hlutum. Hann talar af þekkingu um stjórnarskrána. Hann fjallaði um hlut sem mér finnst mjög mikilvægur, það að núverandi stjórnarskrá sem ég held á hérna er ekki virt. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju svo er ekki, af hverju svona lítil virðing er borin fyrir stjórnarskránni. Ég er ekki viss um að niðurstaða mín sé rétt en ein af þeim skýringum sem ég hef fyrir því er að sumt í henni standist bara ekki.

Mig langar að taka tvö dæmi, annars vegar 15. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Hins vegar er 21. gr. sem hefst svo, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Síðan ég fór að fylgjast með hef ég orðið vör við hvorugt. Mér finnst við þurfa að breyta hlutunum, bæði til þess að laga stjórnarskrána að því hvernig við gerum hlutina en ekki síður til að ákveða í eitt skipti fyrir öll hvernig við viljum hafa þá.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann deili þessari túlkun með mér. Ef svo er ekki, af hverju telur hann að svona lítil virðing sé borin fyrir stjórnarskránni og hún þverbrotin oft?