140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í annarri ræðu minni vil ég helst gera 34. gr. að umtalsefni, en áður en ég sný mér að henni vil ég vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal varðandi aðfaraorðin nefna að þetta er í sjálfu sér ekkert slæmur texti í það heila. Ég vil þó vekja athygli á fyrstu setningunni, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta frekar flatt, „þar sem allir sitja við sama borð“. Ég skil hugsunina en ég held að það megi orða þetta aðeins betur.

Eins vil ég nefna 16. gr. úr því að það er verið að tala um uppáhaldssetningar og uppáhaldsorð. Ég held að það þurfi líka aðeins að líta á þetta, með leyfi forseta:

„Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum.“

Ég er líka þeirrar skoðunar að finna megi annað betra orð en orðið uppljóstrari. Ég þykist vita um hverja er verið að tala en ég held að betri orð séu til á íslenskri tungu en þetta orð.

Þá að 34. gr. Það hafa verið og eru og munu verða deilur um hvernig best er fyrir komið eignarhaldi á náttúruauðlindum. Þessi deila snýst um það hvort sé betra að hið opinbera eða ríkisvaldið fari með eignarhald eða hvort það sé affarasælla fyrir samfélög að það sé í höndum einkaaðila. Þetta snýr að kjarna pólitískrar deilu og um margt mjög áhugaverðrar deilu og er ekki bara áhugavert heldur mjög afdrifaríkt fyrir samfélög hver niðurstaðan verður. Hægt er að nefna mörg ríki, samfélög, sem hafa farið ólíkar leiðir í þessu og því er til mikill reynslubanki um það í veröldinni hvernig ríkjum reiðir af með mismunandi fyrirkomulag þessara mála. Það er víst og ábyggilegt að hægt er að nefna dæmi þar sem hefur verið full sameign á öllum náttúruauðlindum og í þeim ríkjum hefur velmegun fólks sem þar hefur búið ekki verið sambærileg við það sem best hefur gerst í veröldinni og er þá ekki fast að orði kveðið. Eins er líklegra eftir því sem ríkisvaldið tekur til sín meira efnahagslegt vald að réttur einstaklingsins og staða gagnvart hinu sterka ríkisvaldi, sem hefur þá hið efnahagslega vald sem fylgir auðlindastýringunni, verði veikari. Þetta vil ég segja af því að ég frábið mér — ég verð að segja eins og er, frú forseti, að það er nokkuð leiðigjarnt að það gerist í hvert skipti sem við ræðum um auðlindamál í þessum sal — að því sé alltaf stillt þannig upp að þeir sem eru ekki sammála þeim sem t.d. telja að hið opinbera eigi að eiga allar auðlindir gangi erinda einhverra annarra. Hér er um að ræða deilu sem ég tel og færði rök fyrir því í máli mínu að snúi að kjarna pólitískrar hugsunar, því hvernig best er komið fyrir grundvallarfyrirkomulagi í efnahagsmálum þjóða.

Það skiptir auðvitað máli hvernig hlutirnir eru orðaðir. Ég ætla fyrst að benda á það sem talað er um í 34. gr., með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Það er ekki horft á eðli auðlindanna heldur spurt: Hvert er núverandi fyrirkomulag eignarréttinda? Með öðrum orðum er verið að segja: Ja, þar sem um er að ræða laxveiðiréttindi, þ.e. veiðar á laxi í ám þar sem er einkaeign á slíku, verða þau réttindi áfram af því að sú einkaeign er þegar fyrir hendi. En ef réttindin eru hjá ríkinu, t.d. eins og gjarnan er í orkumálum, er verið að segja: Þau réttindi verða alltaf að vera um alla tíð og alla framtíð hjá hinu opinbera. Þá kemur upp spurningin: Hvað eigum við að gera? Í greininni eru taldar upp auðlindir í þjóðareign, með leyfi forseta:

„… nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda.“

Nú liggur líka fyrir að nýtingarréttur, hefðarréttur, myndast vegna nýtingar. Við þekkjum þetta í umræðu um beitarréttindi og annað slíkt. Þá kemur annars vegar upp þessi spurning: Hvað þýðir fullveldisréttur ríkis, t.d. á nytjastofnum, réttur til að semja við aðrar þjóðir um nýtingu slíkra stofna, stýra þeim, stýra veiðum í þá o.s.frv.? — og hins vegar: Hvað þýðir nýtingarréttur? Þetta eru stórar spurningar og ég verð að segja eins og er að mér þykir þetta ákvæði ekki taka mjög skýrt á því. Þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað og fullyrt að með slíku fyrirkomulagi mála yrði grundvallarbreyting á t.d. fiskveiðistjórnarkerfinu held ég að þurfi að færa aðeins sterkari rök fyrir máli sínu en þeir hafa gert hingað til í það minnsta. Hér er ekki talað um upphafningu hefðarréttar þar sem menn hafa á grundvelli hefðar og nýtingarsögu myndað atvinnuréttindi.

Svo að ég taki dæmi um þetta allt saman, af því að það er ekki talað um auðlindirnar út frá eðli þeirra heldur út frá núverandi eignarréttarfyrirkomulagi, þá er eignarréttur á landi augljóst mál sem kannski stærstu pólitísku deilurnar í veröldinni hafa staðið um. Það er svolítið merkilegt að við erum ekki að rífast um eignarrétt bænda á jörðum sínum hér á landi, en það eru mörg dæmi um slíkar deilur um allan heim. Ef við lítum svo á að jarðnæði sé auðlind eigum við þá að líta á þær jarðir sem nú eru í eigu ríkisins sem þjóðareign? Samkvæmt skilgreiningunni sem er sett fram í skýringum við þetta plagg má ríkið aldrei framselja jarðirnar af því að augljóslega eru þær auðlind. Það þarf enginn að efast um að jarðir eru náttúruauðlind. Þýðir það að ríkið má aldrei selja frá sér þær jarðir sem það á nú þegar? Þetta skiptir máli af því að þetta er í fyrsta lagi fordæmisgefandi og snýr líka að því með hvaða hætti við skiljum þessi ákvæði.

Það sem ég er að vara við og varaði við í fyrri ræðu minni og á örugglega eftir að gera aftur úr þessum stól er að þegar við setjum stjórnarskrá þurfum við að hafa á hreinu hvað hugtökin þýða. Gallinn við þessa stjórnarskrá er að sumt af því sem þar er sett fram er mjög almennt orðað eins og yfirlýsingar um margt sem við getum svo sem öll verið sammála um í sjálfu sér en þegar menn fara að skoða það nánar þá koma upp öll þessi vafaatriði. Þau verða að vera útskýrð og vera í lagi til að þetta plagg hafi eitthvert gildi sem stjórnarskrá.

Við rekumst t.d. á þetta: Hvað er auðlind? Eru menn tilbúnir að svara því nákvæmlega hvað auðlind er? Hafa menn nákvæma skilgreiningu á því? Auðlind má t.d. skilgreina sem einhvers konar náttúrugæði sem eru nýtt þannig að kostnaður við nýtinguna er minni en sá ábati sem má hafa af henni og þar með myndast auðlindarenta. Hún verður ekki til af sjálfu sér. Þessi munur á milli kostnaðar og tekna verður til vegna þess að einhverjir, vanalega einstaklingar, finna leiðir til að nýta auðlindina. Það lá ekki fyrir þegar nýtingin hófst að hún væri endilega auðlind og allt mundi ganga upp. Við erum með öðrum orðum ekki búin að finna allar auðlindir náttúrunnar. Þær eru ekki endanleg stærð. Það sem er auðlind í dag getur hætt að vera auðlind á morgun vegna tæknibreytinga, kostnaðarbreytinga og annars slíks. Þess vegna kemur einmitt þessi spurning: Ef það yrði t.d. gríðarleg eftirspurn eftir matvælum frá Íslandi í heiminum og það mundi vera hægt að selja matvæli frá Íslandi á uppsprengdu verði þannig að jarðnæði hér á landi yrði gríðarlega verðmætt, mundi þá koma umræða um hvort eðlilegt væri að lítill hópur einstaklinga ætti meira og minna allt jarðnæði á Íslandi? Mundum við þá segja: Heyrðu, þetta er auðlind sem íslenska þjóðin á, þetta er íslenskt land, íslenska þjóðin á þetta land? Eða mundum við segja: Nei, þarna var um að ræða eignarréttindi fyrir og þau halda? Þá kemur aftur umræðan um hvað við eigum að gera með eignarréttindi sem myndast vegna nýtingarréttar, vegna nýtingarsögu.

Mér finnst þessi grein ekki nægilega vel hugsuð og ekki nægilega vel útskýrð. Fyrir land sem byggir svo stóran hluta af efnahagslegri velferð á auðlindanýtingu tel ég að í stjórnarskránni verði menn að hafa alveg á hreinu hvað er verið að tala um.

Ég minni aftur á það sem ég nefndi hér áður, að ef um er að ræða þjóðareign, þ.e. annað en bara ríkiseign, opinbera eigu, þá hlýtur það að hafa áhrif á rétt manna til að njóta afrakstursins. Ég vil aftur minna á spurninguna varðandi þjóðareign á orkuauðlindum og rétt þeirra sem búa á svokölluðum köldum svæðum til þess að njóta afraksturs af orkuauðlindum sem nú eru t.d. í eigu einstakra sveitarfélaga. Þetta hlýtur að vera til umhugsunar fyrir þá sem um þetta véla.