140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi reyndar svarað spurningunni alveg greinilega. Ég er þeirrar skoðunar að ekki þurfi að endurskrifa stjórnarskrána. Það skiptir því engu máli hvort ég haldi að þingmenn geti skrifað nýja stjórnarskrá eða ekki. Það er raunverulega þannig.

Ræða mín fjallaði að meginhluta nákvæmlega um það álitaefni sem þingmaðurinn drap á. Hvenær er búið að hlaða svo miklum réttindum — ég vil tala um réttindi fremur en mannréttindi — inn í stjórnarskrá að farið er að skerða grunnréttindi eins og eignarréttindi, þ.e. fyrstu kynslóðar réttindin? Eins og ég lít á þessi drög hér þá er þar hlaðið inn alls konar fögrum yfirlýsingum en til að standa við þær og ef menn meina það sem verið er að segja, verður að skerða fyrstu kynslóðar réttindi. Fyrir mér eru fyrstu kynslóðar réttindin heilög. Á góðum degi getum við framkvæmt annarrar og þriðju kynslóðar réttindi.