140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[21:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta síðasta, Lögrétta, er eitthvað mjög stórt og mikið og er eiginlega orðið svona álitsgjafi. Ég hefði frekar viljað að Hæstiréttur tæki þetta hlutverk að sér, að þingnefndir gætu snúið sér til Hæstaréttar með einstök þingmál og hann mundi leggja mat á það hvort þau samrýmdust stjórnarskrá, ef einhver vafi er um það. Velflest frumvörp sigla hér í gegn í góðum friði og góðri spekt. Hæstiréttur gæti auðveldlega gert þetta og hann er þó alla vega óháður Alþingi eða á að vera það.

Ég hefði viljað ganga lengra, að Hæstiréttur dæmdi líka ef kröfur kæmu um það annars staðar frá en á þinginu. Að eftir að búið væri að samþykkja lög hefðu borgararnir eða framkvæmdarvaldið leyfi til að snúa sér til Hæstaréttar og spyrja hvort viðkomandi lög stæðust stjórnarskrá, eins og t.d. kvótafrumvarpið gamla, öryrkjadómurinn og slíkt þar sem Hæstiréttur var í hlutverki stjórnlagadómstóls en að það þurfi þá að taka fram í stjórnarskrá að hann sé stjórnlagadómstóll.

Ég vildi sem sagt árétta þetta með Lögréttuna því að mér finnst að þarna sé verið að búa til nýtt batterí í litlu landi. Ég get alveg skilið það, frú forseti, að hjá 100 millj. manna þjóð eins og Þýskalandi þyki ástæða til að hafa stjórnlagadómstól og hún hefur efni á því. En í svona litlu landi verðum við að gæta hagræðingar og hagræða á öllum sviðum og þá finnst mér ágætt að nota Hæstarétt í þetta til að koma endrum og eins, þetta er ekki mjög oft, og hann taki afstöðu til þess hvort lagafrumvörp eða lög standist stjórnarskrá.