140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Pétur Blöndal erum oftast nær sammála en ég held að við séum ekki sammála um þetta. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé hægt að leggja fyrir Hæstarétt eitthvað sem við getum kallað lögspurningar. Ég held að við eigum að láta við það sitja að Hæstiréttur dæmi í dómsmálum sem til hans berast eða það verði alla vega fyrst og fremst hans verkefni. Vandinn við að senda spurningar af þessu tagi til Hæstaréttar er kannski fyrst og fremst fólginn í því að Hæstiréttur getur síðar þurft að takast á við dómsmál sem byggja á viðkomandi lögum og þá er rétturinn kannski fyrir fram búinn jafnvel að gera sig vanhæfan til að fjalla um málið. Ég sé svona ákveðna vankanta á því þó að ég skilji nákvæmlega hvað hv. þingmaður er að fara.

Kosturinn við að hafa sérfræðinganefnd til að láta í ljós álit í þessu sambandi er að mínu mati ótvíræður. Það kemur oft upp í þinginu umræða um hvort tiltekin ákvæði standist stjórnarskrá eða alþjóðasáttmála og það er auðvitað ágætt að hafa einhvers konar farveg til að fá álit á því, ráðgefandi álit ef við getum orðað það svo, en að mínu mati þarf að útfæra hugmyndina betur en gert er í þessum tillögum stjórnlagaráðs. Það þarf að móta þetta aðeins nánar. Ég held, ólíkt kannski því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan, að það gæti vel komið til þess að það væri mjög mikið leitað til þessarar nefndar ef hún kemst á laggirnar, að það verði mjög oft sem flóknum og viðamiklum spurningum verði beint til hennar úr þinginu. Ég byggi í raun og veru bara á því hversu oft stjórnarskrárspurningar hafa verið til umræðu í þinginu á síðustu árum í tengslum við hin og þessi lagafrumvörp sem tekin hafa verið til meðferðar.