140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins inn í þá umræðu sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hóf áðan og vil í því sambandi vekja athygli á því að í lögum um erlenda fjárfestingu er að finna ákvæði sem bannar beina erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Þetta er gert með tilteknum rökum, þeim að um er að ræða sjálfa sjávarauðlindina og að við viljum vernda aðgang Íslendinga að henni með þessum hætti.

Hins vegar er þar líka að finna ákvæði sem heimilar óbeina erlenda fjárfestingu eftir tiltölulega, getum við sagt, flóknum reglum sem gera það meðal annars að verkum að það getur aldrei orðið svo, þrátt fyrir þessa heimild til óbeinnar fjárfestingar, að erlendir aðilar eignist meiri hluta eða ráðandi hlut í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er að mínu mati ákaflega mikilvægt atriði.

Við vitum reyndar að í fortíðinni hafa verið gerðar nokkrum sinnum atlögur að þessu ákvæði. Mörgum hefur fundist þetta íþyngjandi en ég er ekki sammála því.

Mér finnst hins vegar nokkuð hraustlega skyrpt frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur úr Samfylkingunni að koma með þetta mál hingað upp vegna þess að sá flokkur hefur það sérstaklega á sinni stefnuskrá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Það er alveg ljóst að allar reglur sem hamla erlendri fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi yrðu fyrir bí þann dag sem við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu. Það hljómar því mjög sérkennilega þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir eða aðrir þingmenn úr Samfylkingunni tala um þessi mál í ljósi þess að flokkurinn leggur þessa miklu áherslu á aðildina að Evrópusambandinu. Það er auðvitað ljóst að þann dag sem við gerðumst þar aðilar væru allar þessar hömlur horfnar út úr íslenskri löggjöf.

Ég ítreka að hér er ekki um að ræða mál sem felur í sér beina erlenda fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi. Hér er um að ræða tímabundið ástand sem allir þekkja og ef til dæmis erlendur kröfuhafi mundi eignast íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki hefði hann ekki heimild (Forseti hringir.) til að gera út.