140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. sem er hlutafélag á Akureyri kom fram að þann 9. mars 2011 var stofnað nýtt hlutafélag, Vaðlaheiðargöng hf., í samræmi við lög nr. 97/2010. Félagið er 49% í eigu Greiðrar leiðar og 51% í eigu Vegagerðarinnar. Stofnhlutafé er 20 milljónir. Fyrir hönd Greiðrar leiðar situr í stjórn Pétur Þór Jónasson en fyrir hönd Vegagerðarinnar Kristján L. Möller og Kristín H. Sigurbjörnsdóttir sem er formaður.

Kristján L. Möller er formaður atvinnuveganefndar og ég óska honum til hamingju með að það hafi borist tilboð í þetta verk, Vaðlaheiðargöng, sem lofa góðu, einhver þeirra eru jafnvel undir kostnaðaráætlun, og spyr hann hvernig sé háttað fjármögnun þessa verkefnis. Hver er það sem lánar? Það er getið um það í þessari fundargerð að óskað sé eftir svari fjármálaráðherra um fjármögnun. Nú get ég ekki fundið þessu stað í fjárlögum, fjáraukalögum eða lánsfjárlögum. Það má vel vera að það sé ekki orðið það fast í hendi enn þá og ég spyr sem sagt hvernig þessari fjármögnun er háttað.

Síðan vil ég spyrja: Hvað gerist ef dæmið gengur ekki upp? Segjum að fólk vilji frekar keyra þessum 11 mínútum lengur um hálsinn, dæmið gangi ekki upp, þetta fyrirtæki verði gjaldþrota og geti ekki borgað af þessum lánum sem ríkissjóður hugsanlega veitir — hvað gerist þá?