140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur verið um að Alþingi Íslendinga hafi ekki staðið sig í eftirlitshlutverki sínu. Ég ætla þess vegna að upplýsa þingið um staðreyndir sem liggja fyrir og hvet hv. þingmenn til að sameinast um að sinna þessu eftirlitshlutverki. Í fjölmiðlum hefur komið fram að einn sparisjóður, Byr, hefur ekki uppfyllt kröfur um eigið fé í í það minnsta 18 mánuði og er langt frá því. Eiginfjárhlutfall þessa sparisjóðs var 4–5% þegar lög kveða á um 8% og sú skylda var sett á þær stofnanir sem fengu fyrirgreiðslu frá ríkinu að hlutfallið væri 16%. (Gripið fram í: Tæp …) Ef hv. þingmenn og aðrir sem vilja skoða málið fletta upp í lögum um fjármálafyrirtæki segir í 86. gr. að Fjármálaeftirlitið geti veitt undanþágu í sex mánuði ef líkur eru á því að eiginfjárgrunnur verði fjármagnaður á þeim tíma og við sérstakar aðstæður í aðra sex mánuði, en 18 mánuði — það er ekki heimilt, virðulegi forseti.

Ég vek athygli á því að á sama tíma og þessi banki uppfyllti ekki lagaskilyrði um eigið fé, var hann að opna útibú. Sá sem fór með eigandahlutverkið var hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) Sá hæstv. fjármálaráðherra bendir á Fjármálaeftirlitið. Hæstv. ráðherra sem fer með Fjármálaeftirlitið bendir á hæstv. fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) — Tími minn er ekki búinn. Ef þingið bregst ekki við við þessum upplýsingum, hvenær bregst þingið þá við?