140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli þingheims á bleika bindinu sem búið er að hengja á styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Bleika bindið er áminning femínista til okkar um að setja jafnréttismálin í forgang. Og ég vil taka undir með femínistum, nú þegar fyrir liggja upplýsingar um að launamunur kynjanna hafi aukist. Eftir hrun minnkaði kynbundinn launamunur vegna þess að margir hálaunaðir karlar misstu vinnuna en nú virðist sem að karlar séu búnir að ná vopnum sínum og farnir að fá í mun meiri mæli aukagreiðslur fyrir störf sín.

Frú forseti. Rannsóknir sýna að ójöfnuður eykst í kreppu vegna þess að niðurskurður ríkisútgjalda bitnar harðar á konum en körlum. Á síðasta ári komu fram upplýsingar um að stöðugildum hjá ríkinu hefði fækkað frá hruni um 540. Af þessum 540 stöðugildum hefðu konur verið í 470 þeirra eða um 85% stöðugildanna sem töpuðust.

Fyrirhugaður niðurskurður mun koma mjög hart niður á konum þar sem fátt annað er eftir að skera niður en kvennastörf hjá ríkinu. Ég vil því spyrja hv. formann fjárlaganefndar, sem hefur fram til þessa beitt sér ötullega í jafnréttisbaráttunni, hversu mörg störf, og þá sérstaklega kvennastörf, er gert ráð fyrir að verði lögð niður á næsta ári?