140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu og fagna sérstaklega þeim orðum hans að hann vilji ekki efna til karps um þetta heldur ræða málið yfirvegað og reyna að leita sannleikans í þessu og finna út hvað rétt er. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er algjör óþarfi að þræta um tölur í þessu og rétt að greiða úr óvissu sem kann að skapast ef menn telja sig hafa verið að sjá ólíkar tölur, og reyna að setjast yfir þær og finna það sem rétt getur talist.

Hv. þingmaður vekur máls á þeim miklu hagnaðartölum sem sjást hjá bönkunum núna vegna endurmats eigna. Vissulega er það rétt sem hann segir að það er óheppilegt fyrir okkur að við sjáum þessar hagnaðartölur, því eins og hann segir réttilega gefa þær enga mynd af raunverulegum rekstri bankanna. Þetta er í reynd þannig að rekstur bankans sjálfs, rekstur eiginlegrar bankastarfsemi, er bara hluti af reikningnum og hann er ekkert sérgreindur eða auðgreinanlegur. Það skekkir alla mynd okkar af afkomu bankanna og felur t.d. fyrir okkur þá staðreynd að bankakerfið í dag er of dýrt og of óhagkvæmt og þar er brýn þörf á hagræðingu.

Þær tölur sem núna birtast í hækkuðum væntingum um endurheimtur lána og skila sér þar af leiðandi sem hagnaðartölur inn í rekstur bankanna, eru misjafnar eftir bönkunum. Það fer auðvitað áreiðanlega eftir eignasöfnum í hverju tilviki um sig, enda er það þannig í ársreikningum Landsbankans þar sem greina má þetta nokkuð glöggt, að þar er ljóst að þeir meta niður væntar endurheimtur af einstaklingslánum, en meta upp endurheimtur af lánum til fyrirtækja. Það endurspeglar einfaldlega að minna hefur orðið um endurheimtur á lánum til einstaklinga en gert var ráð fyrir, en meiri endurheimtur og betri hjá fyrirtækjum en gert var ráð fyrir í endurmatinu á sínum tíma þegar stofnefnahagsreikningur bankans var búinn til.

Umræður um svigrúmið og hverjar leiðréttingarnar voru við stofnun nýju bankanna eru langdregnar og menn virðast oft finna leiðir til að vefengja það sem sagt er í því efni. Ég hef engar aðrar opinberar tölur en þær tölur sem koma fram í stofnefnahagsreikningum bankanna. Vert er að hafa í huga að þar er ekki um leiðréttingar að ræða. Þar er verið að freista þess að finna hugmynd um raunverulegt virði eignanna. Það er rétt sem kom fram í svari mínu til hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar í fyrra, að þar er verðmætið 72% af upphaflegu verði á íbúðalánum og 40% á fyrirtækjalánum. (Gripið fram í: Seðlabankanum …) Þetta er misjafnt milli bankanna, og getur verið ólíkt í tilviki ólíkra banka, og auðvitað er vægi hvers lánaflokks um sig misjafnt eftir bönkum.

Samkvæmt því svari um svigrúm, reiknað með þessum hætti, teiknar þetta sig upp á um það bil 90 milljarða í tilviki íbúðalána og upp á um 1.600 milljarða í tilviki fyrirtækja.

Hvernig hafa bankarnir skilað því svigrúmi sem þeir hafa til heimila og fyrirtækja? Þær aðgerðir sem bankarnir og Íbúðalánasjóður hafa þegar gripið til, standa núna í um 164 milljörðum. Það mun þurfa meira til. Þess vegna hef ég alltaf verið tregur að tala um þetta svigrúm sem einhverja heilaga tölu. Ég vil einfaldlega að þeir kosti því til sem þarf. Ég vil ekki að þeir hætti núna og segi: Við ætlum ekki að gera neitt fleira fyrir fólkið í landinu því við erum komnir yfir 90 milljarðana. Ég vil þvert á móti að þeir eyði meiru til, vegna þess að meira þarf til.

Í tilviki fyrirtækjanna er búið að afskrifa um 920 milljarða, miðað við þessar tölur, en þar er enn meira eftir og mikil fyrirtækjaúrvinnsla eftir og meira í pípunum. Það er því í sjálfu sér ekki útséð um hvort heildartap á fyrirtækjalánunum nær þeim 1.600 milljörðum sem gengið var út frá við yfirfærsluna eða hvort það verður eitthvað minna. Hitt er gleðiefni fyrir okkur öll ef fyrirtækin eru að skila betri afkomu og standa betur í skilum en gert var ráð fyrir við uppskiptinguna.

Hversu hratt hefur þetta gengið? Þetta hefur gengið of hægt, en við höfum gert allt (Forseti hringir.) sem mögulegt er til að hvata þetta ferli og hvetja bankana til að vinna hratt. Ég gekkst fyrir samkomulagi við þá um úrvinnslu fyrirtækjalánanna í fyrrahaust sem hefur staðið eins og stafur á bók. Þeir hafa staðið við (Forseti hringir.) þau mörk sem þeir settu sér þar, munu ljúka tilboðum um fyrirtækjalán fyrir árslok. Það er vaxandi gangur í skuldaúrvinnslu einstaklinga.