140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

26. mál
[17:31]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það sem ég sagði um tortryggni í garð lögreglunnar þá byggi ég það t.d. á því sem fram hefur komið um kaup lögreglunnar á einhvers konar varnarbúnaði undanfarnar vikur þar sem ekki hafa fengist enn þá viðhlítandi skýringar á því hvers vegna ekki var farið að lögum við kaup á þeim búnaði.

Auðvitað er ekki lögreglunni allri vantreyst, alls ekki, og ég vantreysti ekki heldur lögreglunni almennt heldur ber ég mjög gott traust til hennar. En engu að síður í því andrúmslofti almenns vantrausts í samfélaginu og vantrausts á yfirmönnum lögreglunnar vegna sögu þeirra tel ég mjög varasamt að veita henni auknar heimildir. Ég held sjálfur að ég mundi hugsanlega bera meira traust til lögreglunnar eða til að veita svona heimildir ef ég byggi í öðru landi en Íslandi. En eins og ég taldi upp áðan, miðað við forsögu þessa máls og atvik sem ég taldi upp þá hefur það verið lenska hér að menn hafi farið langt umfram það sem þeim hefur verið leyfilegt að gera í mörgum tilvikum, og menn hafa hegðað sér, ja, ég veit ekki hvað á að kalla það þegar yfirvöld taka tugi manna og læsa þá inni í barnaskóla í Keflavík. Ef það er ekki brot á lögum veit ég ekki hvað það er, en það er engu að síður eitthvað sem var gert hér að skipun stjórnvalda kínverska alþýðulýðveldisins. Við þurfum að leysa úr því fyrst að svona hlutir geti ekki gerst aftur áður en við förum að veita sömu yfirvöldum njósnaheimild.