140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

virðisaukaskattur af opinberri þjónustu.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þetta svar hæstv. ráðherra veldur mér vonbrigðum. Ég vil í fyrsta lagi koma því að að á milli áranna 2008 og 2009 fjölgaði opinberum starfsmönnum um 300 á sama tíma og atvinnulausum fjölgaði um 10 þúsund. Sú þróun sem hér er vísað til hefur ekki átt sér stað.

Þetta er mikið grundvallaratriði sem við erum hér að ræða, fjallar meðal annars um það að við náum hámarksskilvirkni og hagkvæmni í opinberum rekstri, að það séu ekki til staðar hvatar í skattkerfinu fyrir opinbera þjónustuaðila til að koma á fót eigin stofnunum sem geta ekki veitt þjónustuna með jafnhagkvæmum hætti og einkaaðilar gera úti í bæ, en vegna þess að virðisaukaskattur leggst á þá þjónustu þegar hún er keypt koma menn sér upp þjónustunni innan dyra. Þetta er grundvallaratriði. Þetta snýst um að við gerum hlutina eins hagkvæmt og með eins litlum tilkostnaði og hægt er í opinberri þjónustu. Það skiptir sérstaklega miklu máli núna á niðurskurðartímum þegar allar opinberar þjónustustofnanir eru að leita leiða til að hámarka nýtingu þeirra fjármuna sem þær hafa (Forseti hringir.) að skattkerfið verði leiðrétt í þessu efni.

Ég kalla eftir skýrum svörum um það hvort einhver alvara er á bak við þau orð að ætla að taka kerfið í þessu til endurskoðunar.