140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

[10:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skal svara alveg skýrt. Ég ætla ekki að gera neitt með lögþvingunum. Það hefur verið áhersla mín frá því að ég settist í stól upphaflega sveitarstjórnarráðherra og síðan innanríkisráðherra að breytingar á sveitarstjórnarstiginu verði ekki knúðar fram með lögþvingunum.

Ég bendi hins vegar á að ýmislegt í skipulagsformunum er að breytast og við höfum reynt að stuðla að því. Þá nefni ég samstarf um almenningssamgöngur og um ýmsa aðra þætti. Við erum að breyta reglugerðarverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna þannig að útstreymi úr sjóðnum sé alltaf miðað við þarfir íbúanna, við þjónustustigið. Það er þetta sem hið miðstýrða stjórnvald getur gert, það getur reynt að stuðla að þessari þróun en án þess að beita lögþvingunum.