140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

salan á Byr og SpKef.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við vitum að þrátt fyrir lögin um Bankasýslu ríkisins ákvað hæstv. fjármálaráðherra að fara sérstaklega með eigendavald í tveimur bankastofnunum, Byr og SpKef. Það hefur vakið mikla athygli. Við vorum að fá svör í vikunni sem tengdust fyrirspurnum sem við lögðum fram en fyrirspurnum okkar var þó ekki svarað beinlínis þannig að við þurfum að spyrjast mikið fyrir um þessi mál í framhaldinu.

Einnig hefur komið fram og verið staðfest að Byr er búinn, undir eignarhaldi hæstv. fjármálaráðherra, að brjóta lög um eiginfjárhlutfall og ýmislegt annað en ég ætla ekki að fara í þá þætti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti sagt hvort mögulegt sé að kröfuhafar hafi öðlast kröfu á ríkið vegna æfinga við forustu eða eigendavald hæstv. fjármálaráðherra, sem ég hef ekki tíma til að fara nákvæmlega yfir núna.

Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárútlátum vegna SpKef sem menn höfðu áhyggjur af eftir samrunann við Landsbankann vegna þess að Landsbankinn mat eignir SpKef mun lægri en ráð var fyrir gert. Ég fagna því og lít svo á, nema hæstv. fjármálaráðherra leiðrétti mig, að niðurstaða fáist í það mál þannig að Landsbankinn taki eignasafnið eins og lagt var upp með og það sama eigi að sjálfsögðu við um Byr, enda hefur hæstv. fjármálaráðherra margoft lýst því yfir að þau kaup snúist bara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.