140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

framlag úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga.

[10:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hæstv. innanríkisráðherra fer með málefni sveitarfélaganna í landinu. Mig langaði að ræða við hæstv. ráðherra og beina til hans spurningum vegna fyrirhugaðrar fjárveitingar úr ríkissjóði til sveitarfélagsins Álftaness en þó á aðeins öðrum forsendum en hv. þm. Þór Saari gerði áðan.

Hluti af því sem rætt er um varðandi Álftanes er að taka um 300 millj. kr. á þessu ári af aukaframlagi jöfnunarsjóðs og setja til sveitarfélagsins Álftaness, það er um það bil helmingur af aukafjárframlaginu þetta árið, og að markmiðið verði að um 1.000 millj. kr. eða 1 milljarður renni til sveitarfélagsins úr jöfnunarsjóði vegna fjárhagsvanda þess sveitarfélags.

Í dag er að hefjast fjármálaráðstefna sveitarfélaganna þar sem menn í sveitarfélögum á öllu landinu ræða fjárhagsstöðuna og hvernig mögulegt sé að ná endum saman fyrir næsta ár. Staðreyndin er sú að við mörgum sveitarfélögum blasa mjög erfiðar fjárhagsaðstæður og mörg þeirra hafa skorið niður og hagrætt þar sem mögulegt er. Sum þeirra eru komin á það stig að þau geta ekki lengur sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í ljósi þeirrar ákvörðunar hæstv. ríkisstjórnar að taka 300 millj. kr. á þessu ári af aukafjárframlagi jöfnunarsjóðs og nota til aðstoðar við eitt sveitarfélag sem er í raun komið í þrot, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því með hvaða hætti verði komið til móts við önnur sveitarfélög sem sótt hafa í þennan jöfnunarsjóð. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir þessi sveitarfélög. Með hvaða hætti verður komið til móts við þessi sveitarfélög? Er gert ráð fyrir frekari fjárveitingum í jöfnunarsjóð? Það er þessum sveitarfélögum gríðarlega mikilvægt að fá svar við þeirri spurningu.