140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

ferjumál í Landeyjahöfn.

[11:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum vikum síðan skipaði ég samráðshóp, samstarfs- og vinnuhóp, undir formennsku bæjarstjórans í Vestmannaeyjum, Elliða Vignissonar, en að þessum hópi koma fulltrúar nánast allra þeirra sem tengjast samgöngumálum við Vestmannaeyjar. Það eru fulltrúar Vegagerðarinnar, fulltrúar ráðuneytisins, fulltrúar meiri hluta og minni hluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja, Eimskipafélagsins og Siglingamálastofnunar.

Hópurinn óskaði eftir því að fá heimild til að skipa undirhóp sem yrði þá einnig starfandi á vegum innanríkisráðuneytisins sem kannaði skipakost. Eitt af því sem rætt hefur verið í þessum hópi og ég hef verið upplýstur um er meðal annars að nýta Baldur til þessara siglinga eins og verið hefur tímabundið. Slíkur fundur fór fram í lok síðustu viku þar sem þessi mál voru rædd og allt er það í skoðun og athugun.

Ég tek undir með hv. þingmanni að líta beri á samgöngur við Vestmannaeyjar sem hluta af vegakerfinu, samgöngukerfinu. Þetta er þjóðbrautin til Vestmannaeyja og við erum staðráðin í því að gera áfram allt sem í okkar valdi stendur til að halda þeim samgöngum eins góðum og opnum og nokkur kostur er.

Við þurfum líka að vera raunsæ. Við þurfum horfa til þess sem hægt er að gera og einnig að meta það af raunsæi hvað ekki er hægt að gera. Við Íslendingar erum ekki ein í þeirri stöðu að þurfa að glíma við erfið náttúruöfl. Danska strandgæslan hefur þannig ein þrjú eða fjögur sanddæluskip á sínum vegum sem dæla öllum stundum sandi við hafnir á Jótlandsströndum, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Við þurfum því að gera þetta tvennt í senn; (Forseti hringir.) að vera viljug til að leysa málið en jafnframt að vera raunsæ á hvað hægt er að gera og hvað ekki er hægt að gera.