140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór nokkuð rækilega yfir í framsöguræðu minni er staða málsins varðandi Sparisjóð Keflavíkur, eða SpKef sparisjóð, sú að í gangi eru viðræður milli Landsbankans hf. og ríkisins á grundvelli þess samnings sem gerður var um sameininguna og liggur niðurstaða ekki fyrir í þeim efnum. Það er því afar erfitt að nefna tölu í því sambandi og ekki beinlínis heppilegt fyrir samningshagsmuni ríkisins að slíkt sé gert. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi skilning á þeim aðstæðum en það liggur svo sem fyrir og er opinbert að verulegur munur er á mati Landsbankans á eignasafninu og því mati sem stjórn sparisjóðsins sjálfs stóð fyrir og lá til grundvallar á útmánuðum eða fyrri hluta ársins í ár.

Hér er um háar fjárhæðir að ræða. Það var mat sparisjóðsins og óháðs aðila sem um þetta fjallaði á útmánuðum að liðlega 11 milljarða kr. vantaði upp á að eignir dygðu á móti skuldum sparisjóðsins. Hefði á þeim grundvelli ríkið ákveðið að endurfjármagna sparisjóðinn hefði kostnaðurinn nálgast 20 milljarða þegar saman var þá lagður hallinn á sjóðnum og nauðsynlegt eiginfjárframlag frá ríkinu. Hér tölum við því um fjárhæðir sem mælast í tugum milljarða, því miður, og það er alveg ljóst að undan þeim kostnaði kemst ríkið ekki. Hann er fallinn á það vegna yfirlýsingarinnar um að allar innstæður séu tryggðar og enginn mun sjálfviljugur leggja fram muninn á eignum og skuldum sparisjóðsins þannig að ekki er hægt að nefna þarna endanlega tölu fyrr en niðurstaða liggur fyrir úr því ferli sem nú er í gangi. En þær tvær tölur sem ég hef nefnt og svo sú tala sem heyrst hefur opinberlega í fjölmiðlum frá Landsbankanum — án þess ég viti hvort Landsbankinn hafi (Forseti hringir.) staðfest það — er af stærðargráðunni 30 milljarðar (Forseti hringir.) á þeirra hluta.