140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina.

Mig langar að spyrja hann út í breytingar á 3. gr. frumvarpsins, sem er reyndar á 5. gr. fjárlaga, þar sem fram kemur, eins og greinin er í dag, að veita hlutafélagi, sem komið verður á stofn um vegaframkvæmdir, allt að 6 milljarða kr. Lagt er til að greininni sé breytt þannig að hún orðist með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Seðlabanka Íslands allt að 117.000 milljörðum kr.“

Ég skil ekki samhengið, þ.e. annars vegar hvort þetta eru tæknileg mistök sem ég átta mig bara ekkert á, og hins vegar hvort ekki þurfi að geta um þær ábyrgðir sem fylgja því að fara í þessar framkvæmdir. Ég hef ekki séð þær í fjárlögunum 2012, ég sé þær ekki í fjáraukalögunum 2011. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ekki sé þá mikilvægt að geta þess í fjárlögunum eða fjáraukalögunum eftir að sú ákvörðun var tekin að fara í framkvæmdirnar með ríkisábyrgð en ekki í einkaframkvæmd.

Það vakti líka undrun mína að hvorki í fjárlögum fyrir árið 2012 né fjáraukalögum fyrir árið 2011 er minnst á byggingu á nýju fangelsi. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort einhver stefnubreyting hafi orðið hjá hæstv. ríkisstjórn um að hætta við bygginguna því að hvergi er getið um hana. Því vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji ekki mjög eðlilegt að um það sé fjallað í annaðhvort fjáraukalögum eða fjárlögum.

Að lokum: Eftir allar þær deilur sem orðið hafa um Kvikmyndaskóla Íslands á undanförnum vikum og mánuðum velti ég fyrir mér að í fjáraukalögunum stendur að sækja eigi um 8,5 millj. kr. framlag til aðalskrifstofu ráðuneytisins vegna stefnumótunar um kvikmyndanám.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er þörf á þessari stefnumótun? Er ætlunin að breyta stefnumótun í kvikmyndagerð? Getur Kvikmyndaskólinn ekki sjálfur séð um stefnumótunina? Þar af leiðandi væri hægt að spara 8,5 milljónir á aðalskrifstofunni og leggja það í námið og skólann.