140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi endurlán til hlutafélaga sem annast samgönguframkvæmdir er ekki gert ráð fyrir að til falli kostnaður á þessu ári í þeim mæli sem menn bjuggust við í upphafi þessa árs eða í lok síðasta árs þegar heimildirnar voru settar inn. Þær munu væntanlega og vonandi gera það á næsta ári og þá sérstaklega í tilviki Vaðlaheiðarganga. Þá hefur orðið um það samkomulag að ríkið tryggi fjármögnun á byggingartíma með því að endurlána til félagsins á kjörum sem eru markaðskjör ríkisins á þeim tíma. Það er þá hluti af heildarlánveitingum ríkissjóðs á árinu og er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að upplýsa hv. fjárlaganefnd betur um það.

Varðandi lántökuheimildir til Seðlabankans er þar um að ræða að hafa heimildir til staðar sem eru fullnægjandi til að geta dregið á lánin frá samstarfssjóðum, verði það niðurstaðan að gera það fyrir árslok. En eins og hv. þingmenn vita væntanlega standa þær heimildir opnar til ársloka og sú ákvörðun verður tekin á næstu vikum hvort, og þá í hvaða mæli, dregið verður á eftirstöðvarnar af lántökuheimildum til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða.

Varðandi fangelsi gildir væntanlega svipað þar um að ekki er gert ráð fyrir að kostnaður sem ekki rúmast innan heimilda innanríkisráðuneytisins í ár falli til á þessu ári, en á næsta ári má gera ráð fyrir nokkrum kostnaði vegna hönnunarsamkeppni og ég geri ráð fyrir því að tillögur um það verði komnar fram fyrir 2. umr. fjárlagafrumvarps fyrir 2012.

Um Kvikmyndaskóla Íslands er það að segja að það er liður í heildarvinnu á því sviði, sem tengist framtíð Kvikmyndaskólans og kvikmyndanáms í landinu, að leggja í þessa stefnumótun í samstarfi við Samtök kvikmyndagerðarmanna og það er áætlaður kostnaður í þeim efnum sem ráðuneytið telur sig ekki ráða við innan fjárheimilda sinna.