140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar að spyrja út í heimildarbreytingar 6. gr. í fjáraukanum og minna á að í raun og veru er heildarfjárliðurinn um 330 milljónir á þessu ári. Þar inni eru aðgerðir upp á tugi milljarða.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér um að í raun og veru sé verið að færa í orð þær útgjaldaskuldbindingar sem klárlega munu falla á ríkissjóð, sem eru væntanlega einhverjir tugir milljarða, en Alþingi muni ekki gera sér grein fyrir því og sjái ekki niðurstöðuna fyrr en ríkisreikningur 2011 liggur fyrir. Mér finnst það mjög sérkennilegt og hef margoft gagnrýnt að við skulum vera með 6. gr. heimildir sem klárlega eru inni, fleiri tugir milljarða, en einungis um 300 milljónir á þessum lið. Er hæstv. ráðherra sammála mér um að verði þetta samþykkt munum við ekki gera okkur grein fyrir því sem hér sitjum fyrr en við framlagningu ríkisreiknings fyrir árið 2011 hver raunveruleg útgjaldaukning hjá ríkissjóði er?