140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór alveg rækilega yfir hvers vegna ekki eru forsendur til að nefna þar einhverjar tölur. Á meðan málið er í viðkvæmu samningaferli er ekki venjan að annar samningsaðilinn sýni á spilin hjá sér með áætlun um hvað hann reikni með að þurfa að leggja inn í slíka samninga, eða ef það færi í úrskurðarfarveg, þá yrðu menn einfaldlega að hlíta þeirri niðurstöðu sem þar kæmi.

Ég fullvissa hv. þingmann um að það mun ekki standa á því að skila upplýsingum til fjárlaganefndar og Alþingis jafnóðum og eitthvað frekar er um málið að segja um leið og það skýrist hvaða útgjöld gætu orðið þarna á ferðinni, og þau eru fyrst og fremst bundin þessu eina máli. Mér er ekki kunnugt um að á ferðinni séu væntanleg áföll önnur en þau sem tengst geta því að ljúka samningunum um Sparisjóð Keflavíkur við Landsbankann. Það er nokkuð öruggt mál að jafnvel þó að leggja yrði Íbúðalánasjóði til eitthvert viðbótarfé til að styrkja eiginfjárstöðu hans mundi ekki þurfa að afskrifa það eins og þurfti í fyrra tilviki vegna þess að Íbúðalánasjóður er með þó nokkuð jákvæða eiginfjárstöðu. Spurningin væri þá um að leggja honum til aukið eigið fé sem að sjálfsögðu þyrfti ekki að gjaldfæra með sama hætti og var niðurstaða (Forseti hringir.) í ríkisreikningi ársins 2010.