140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í skýrslu um ríkisbúskapinn 2012–2015 er kafli um áhættu sem kunni að vera til staðar fyrir ríkissjóð í þessum efnum. Þar er fjallað um Icesave. En þar er auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að engin leið sé að áætla núna hver kostnaður íslenska ríkisins geti orðið, allt frá því að verða enginn ef allra besta niðurstaða fengist, yfir í að verða mjög verulegur ef við töpuðum illa dómsmáli og teldumst ábyrgir fyrir öllum innstæðunum en ekki bara lágmarkstryggðu fjárhæðinni. Það er ekki hægt að fjalla um þá hluti öðruvísi á þessu stigi máls en að gera grein fyrir þeim og fjalla um þá í texta eins og þar er gert. (PHB: Ég var ekki að tala um …) (Gripið fram í: … búið að skrifa undir samninginn.) (Forseti hringir.) Þegar skuldbindandi niðurstaða liggur fyrir gegnir að sjálfsögðu öðru máli.

Ef svo færi að við fengjum þær skaðabætur sem flokksbræður hv. þingmanns telja að við eigum rétt á frá Bretum, NATO og Evrópusambandinu upp á 11 þús. milljarða kr., þurfum við ekki að hafa af þessu miklar áhyggjur, hv. þingmaður, ef það er verðmiðinn á tjóninu sem hrunið kostaði Ísland, hver sem telst svo endanlega ábyrgur fyrir því. (Forseti hringir.) Ætli það gæti nú ekki farið svo að einhver hluti ábyrgðarinnar teldist liggja hjá okkur sjálfum?