140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans og innlegg hér. Við erum sammála um margt þó að áhersluatriðin geti verið mismunandi. Það vakti athygli mína þegar hann rakti fyrir áheyrendum þau bréfasamskipti sem hann hefur átt við ráðuneytin til að fá upplýsingar um fjármuni sem eigi að nýta í ESB-umsóknina. Ég hef sjálfur óskað eftir upplýsingum frá ríkisendurskoðanda og það tók ríkisendurskoðanda eitt og hálft ár tæpt að svara mér einhverju sem ég taldi að ekki þyrfti meira en tvo, þrjá virka daga til að gera.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í þetta: Getur verið að kerfið, að báknið sé á einhvern hátt að villa um fyrir alþingismönnum? Þær upplýsingar sem hann fékk í bréfum stangast á við þær upplýsingar sem eru í fjáraukalögunum núna. Hver er skoðun hans á þessu?

Annað sem mig langar til að velta upp eru þær stóru tölur sem standa alltaf fyrir utan þær upplýsingar sem við fáum bæði í frumvarpi til fjáraukalaga og í fjárlögum fyrir árið 2012. Hæstv. fjármálaráðherra talar um frumjöfnuð en minnist ekki á heildarjöfnuðinn þar sem allir vextirnir eru. Við erum að tala um 80 milljarða hvorki meira né minna. Það væri gaman að heyra hvað hv. þingmanni finnst, hvort við þurfum ekki að hafa þetta allt saman til staðar þegar við förum yfir fjármál ríkissjóðs.