140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst af öllu vil ég taka fram að ég hef enga ástæðu til að ætla að ríkisendurskoðandi vinni með þeim hætti að hann haldi upplýsingum frá þinginu, ég vil bara undirstrika þá skoðun mína og afstöðu. Það gegnir öðru máli með Stjórnarráðið sjálft einfaldlega vegna þess að þar eru æðstu yfirmenn pólitískir ráðherrar sem hafa kannski hag af því að stýra upplýsingagjöf til þingsins, telja sig hafa pólitískan ávinning af slíku lagi og það kann vel að vera að þeir geti tryggt sér betri gæði með því. Ástæða þess að ég geri þetta að umtalsefni þó að þetta sé ekki ýkja há fjárhæð í heildarsamhenginu er sú að ég vil undirstrika það að meðan upplýsingagjöfin er með þeim hætti sem hún er í þessu tiltekna máli sem er viðkvæmt pólitískt, Evrópuaðildarumsóknin, getum við varla vænst þess að unnið sé með önnur atriði sem eru líka jafnframt viðkvæm með einhverjum öðrum hætti en þeim að upplýsingum sé haldið frá þinginu. Það er gjörsamlega óásættanlegt. Ég skil ekki hvaða feimnismál þetta þarf að vera. Hér er um að ræða fjármuni sem ætlaðir eru til að draga úr nettókostnaði ríkisins til þessa máls. Af hverju geta menn ekki viðurkennt það?

Ég er sammála hv. þingmanni um það að þegar við erum að ræða afkomuna eigum við að hafa heildardæmið undir allt saman. Á það hefur skort og það er ekki nýr veruleiki eins og ég hef margoft bent á í ræðum mínum, en í ljósi stöðunnar og alvarleika hennar sem við er að glíma ber okkur öllum skylda til þess og ábyrgð okkar í fjárlaganefnd liggur til þess númer eitt, tvö og þrjú að draga fram alla þá þætti sem við teljum að ríkissjóður þurfi með einhverjum hætti að standa skil á á komandi árum. Það hefur því miður ekki verið gert í þessu plaggi