140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að einhver sé að reyna að dylja upplýsingar út af því að málið sé pólitískt viðkvæmt. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það en ég tel að það sé skylda framkvæmdarvaldsins að nýta þá styrki sem mögulegir eru til að styrkja stöðu Íslands í þeim aðildarviðræðum sem við erum í við Evrópusambandið. Þetta eru styrkir sem eru beinlínis til þess fallnir að auðvelda okkur þýðingarvinnu og alla rýnivinnu til að Ísland standi sem sterkustum fótum í þessum samningaviðræðum.

Utanríkisráðuneytið var það ráðuneyti sem sagðist nýta þessa styrki og svo var rætt um þetta í samhengi við Hagstofu Íslands. Ég skil ekki enn þá að hvaða leyti var verið að leyna þeim liðum sem fram koma í þessum svörum.