140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það er heldur hvimleitt og bagalegt að glíma áfram við óvissuliði tengda hruninu eins og uppi eru í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur. En þannig er það nú bara, því miður, að það er enn eftir uppsóp, getum við sagt, frá hruninu sem við þurfum að takast á við, en þeim liðum fer sem betur fer mjög fækkandi. Sá stærsti einstaki þeirra sem mér er kunnugt um á þessu stigi og eftir er er Sparisjóður Keflavíkur og það er þá huggun harmi gegn.

Ég held að hvað sem líður framsetningu og umfjöllun um slíka óvissu eða óreglulega liði, og þeim fer fækkandi eins og ég segi, dregur það ekki úr gildi þess að við höfum sjónir á því hvernig undirliggjandi rekstur ríkisins er þar fyrir utan að þróast. Við göngum auðvitað út frá því að smátt og smátt ljúki þessu tímabili þar sem skjóta upp kollinum eftirlegukindur frá hruninu sem geta leitt til kostnaðaráhrifa fyrir ríkissjóð og þá skiptir auðvitað öllu máli hvernig hinn stöðugi undirliggjandi rekstur ríkisins stendur. Þar hafa orðið veruleg umskipti á til hins betra.

Ég ætla að leyfa mér að nefna hér þróun frumjafnaðarins þó að ég viti að hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni þyki það hvimleitt, en það er náttúrlega þannig að sjálfur grunnreksturinn, að frátöldum fjármagnsliðum, var öfugur um 100 milljarða kr. 2009. Gangi forsendur fjárlagafrumvarps næsta árs eftir verður þar orðinn tæplega 40 milljarða afgangur á frumjöfnuði. Það er gríðarleg umbreyting til hins betra á undirliggjandi rekstri ríkisins og eftir því sem óvissuliðum og óreglulegum liðum fækkar sem við getum þurft að búast við og takast á við tengda hruninu, hvort sem það eru fjármálastofnanir eða framlög í sjóði á vegum ríkisins, skiptir þessi bati sköpum.

Heildarjöfnuðurinn ef við höfum fjármagnsliðina með, ef hallinn á ríkissjóði verður um 1% af vergri landsframleiðslu á næsta ári í staðinn fyrir 14,6% 2008, 9% 2009, held ég að meira að segja (Forseti hringir.) hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hljóti að gleðjast yfir því og er þar ekki verið að (Forseti hringir.) tala um frumjöfnuð heldur heildarjöfnuð. (HöskÞ: Ertu í andsvari við mig?)