140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:24]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið við mig og Höskuld Þór Þórhallsson. (Gripið fram í.)

Það er alveg rétt að vonandi er þetta sparisjóðsdæmi eitt af síðustu brotunum sem sópað er upp og hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni. Ég minni hæstv. ráðherra á að það er ekki sama hvernig verkið er unnið. Það er ekki sama hvernig sóparinn vinnur sitt verk. Ef honum hefur verið treyst til þess að taka höndum um kústinn þýðir ekki fyrir hann sem eljusaman samviskusaman sópara að kenna þeim sem braut glasið um það ef hann vinnur ekki sína vinnu það vel að einhver stingi sig á glerbrotinu. Umræðan snýst um það hvernig verkið er unnið, hvernig sóparinn vinnur sitt verk. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um það að það þurfti að taka til og það tekur tíma. Það sem ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á er hvernig verkið er unnið og hvaða aðstöðu ég sem þingmaður í fjárlaganefnd hef til að rækja skyldur mínar við þá sem treystu mér til þess starfs að sitja í fjárlaganefnd. Ég hef metið það svo að til þess að ég geti unnið verk mín af heilindum á vettvangi fjárlaganefndar þurfi ég fyllri og meiri upplýsingar en ég hef haft aðgang að í þessum efnum og tel fulla ástæðu til, ekki síst í ljósi umræðunnar um frumjöfnuð og heildarjöfnuð, að við höfum þokkalega gott yfirlit og tilfinningu fyrir heildarskuldbindingum ríkissjóðs þegar við erum að reyna að vega og meta möguleika á því að frumjöfnuðurinn batni og vaxi meira en raun ber vitni um, þótt vissulega beri að fagna hverjum áfanga í þeim efnum.