140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér létti allnokkuð undir lok ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem ég þakka ágæta ræðu. Hann nefndi nefnilega í lok ræðu sinnar að það væri ekki allt jákvætt í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Ég held að það sé nefnilega rétt, það er ekki allt jákvætt.

Okkur þingmenn greinir á um einn mikilvægan hlut, það er hvort ríkisstjórnin hafi náð góðum árangri. Hann nefndi að haldið yrði áfram á sömu braut. Ég vona svo sannarlega ekki, vegna þess að hagvöxturinn er langt undir þeim væntingum sem allir greiningaraðilar höfðu um að hann yrði hér á landi. Hv. þingmaður nefndi að ríkisstjórnin hefði staðist þau markmið sem hún hefði sett sér. Ég held að það sé ekki alls kostar rétt. Það er rétt varðandi frumjöfnuðinn. Það er í sjálfu sér ekkert mál að skera niður eða auka skatta og ná fram frumjöfnuði, en þar vantar öll vaxtagjöld og það vantar líka að minnast á að í planinu sem ríkisstjórnin setti sér í júní 2009 ætlaði hún að vera búin að ná um 4,4% hagvexti. Seðlabankinn er rétt með 1,6% hagvöxt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn breytti spá sinni í neikvæðari horfur. Þá höfum við ekki náð niður verðbólgunni. Hverju svarar hv. þingmaður þessu? Verðbólgan bitnar á lánum heimilanna. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að auka hagvöxt og kveða niður verðbólgudrauginn?