140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga og ég fjallaði um það í ræðu minni áðan og ætlast nú til þess að við höldum okkur við umræðuefnið en förum ekki út um víðan völl. Ég sagði og stend við það, að fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum hér sé til vitnis um að við höfum náð þeim markmiðum sem við ætluðum okkur að gera, eða er hv. þingmaður ósammála því? Því hefur verið haldið fram að það séu þá eingöngu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur af öllum aðilum í vestanverðri Evrópu, sem viðurkenna það ekki, Höfum við ekki náð árangri í samræmi við það sem við ætluðum okkur? Ég held það. Ég held að það blasi algjörlega við. Ríkisstjórnin hefur náð þeim markmiðum sem hún ætlaði sér í rekstri ríkisins.

Ég fór yfir það í ræðu minni áðan sem ég held að blasi við öllum sem fletta í fjáraukalagafrumvarpinu, að stærsti hluti aukinna útgjalda sem fram koma er vegna gerðra kjarasamninga. Ég tel að nauðsynlegt hafi verið að gera þá, algjörlega óumflýjanlegt. Sumir hafa kallað þá ofrausn og talið að of langt væri gengið, ég er annarrar skoðunar. Ég held því fram að ekki hafi verið hægt að komast hjá því og þannig hafi stjórnin staðið við öll þau markmið sem hún setti sér. Tekin var ákvörðun um að gera kjarasamninga. Því fylgdi að seinkað var lokum efnahagsáætlunar um um það bil eitt ár, en beinn rekstur ríkisins hefur þar fyrir utan verið algjörlega eftir því sem áætlað var. Eða lauk ekki samstarfi Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í sumar með því að viðurkennt var og gengist inn á það að rekstur ríkisins og efnahagsáætlun hefði gengið eftir í samræmi við áætlanir sem lagt var af stað með 2009? Eða hefði af þeim lokum orðið í sumar ef þannig hefði ekki verið?