140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kostar milljarða og milljarðatugi að vinna okkur út úr þeim vanda, hv. þingmaður, sem lenti á herðum á okkur haustið 2008. Þá skulum við ekkert vera að horfa endilega í það hverjum eða hvort (Gripið fram í.) einhverjum er um að kenna, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert að þvarga um að hér sé alltaf verið að vitna í hrunið og það megi ekki einu sinni gera það. Það er sú fortíð sem menn vilja ekki ræða en þess vegna erum við hér í dag, hv. þingmaður. Það er þess vegna sem við erum í þessum vanda, þess vegna erum við að skera niður og reyna að afla ríkinu tekna og það er þess vegna sem verið er að beita óhefðbundnum aðferðum við að reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum, hv. þingmaður.

Hvað vildi hv. þingmaður gera fyrir viðskiptavini Sparisjóðs Keflavíkur? Átti að láta þá sjálfa bera það, öfugt við það sem hv. þingmaður væntanlega studdi í öðrum bankakerfum, í bönkum sem féllu haustið 2008? Var ekki tekin ákvörðun um eitthvað annað þá? Ætlum við ekki að standa við það? Var það aldrei planið, eða hvað?