140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að gríðarlega mikilvægt er að hafa frið á vinnumarkaði, til að hafa stöðugleikann. Ég hef hins vegar aðeins meiri áhyggjur en hv. þingmaður af kaupmáttaraukningunni og hvort það gæti hugsanlega orðið kaupmáttarrýrnun vegna þess að innstæða fyrir kjarasamningunum sé ekki fyrir hendi. Ég hræðist það töluvert og vona að það séu bara óþarfa áhyggjur af minni hálfu. Eigi að síður verðum við að gera okkur grein fyrir því að það gæti gerst því að við þurfum líka að átta okkur á að þegar við ræðum um útgjaldahliðina hjá ríkinu, sem kemur að stærstum hluta til vegna kjarasamninganna og þess sem þar gerist, þá hafa kjarasamningarnir líka mjög pósitífa niðurstöðu á tekjuhlið frumvarpsins. Við það að fara í þessar eingreiðslur, með framhlaðna kjarasamninga, kemur fram pósitíf niðurstaða á tekjuáætlun frumvarpsins. Þannig að þegar við skoðum heildina munar miklu minna en kemur fram í útgjöldunum.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort menn verði ekki að skoða þetta sérstaklega í meðförum hv. fjárlaganefndar á fjáraukalagafrumvarpinu.