140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kvartaði yfir því að lítill áhugi væri á fjáraukalagaumræðunni en ég vek athygli á því að þingpallar eru fullir af ungu fólki sem hefur greinilega mikinn áhuga á umræðunni og er það vel.

Í þessari umræðu höfum við mikið rætt landlæga óstjórn í efnahagsmálum. Er það orðrétt haft eftir hv. formanni fjárlaganefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Ég er sammála því að sú skýrsla sem allir nefndarmenn í fjárlaganefnd stóðu að var mikið framfaraspor og það gefur til kynna að þingmenn almennt vita af vandanum.

Hér í umræðunni hefur verið gagnrýnt mjög harkalega að í því fjáraukalagafrumvarpi sem liggur fyrir sé bara að finna hálfa söguna, því miður. Það er einmitt það sem ég hef verið að ræða um þegar ég hef sagt að hæstv. fjármálaráðherra stæri sig af því að hafa náð þeim markmiðum í frumjöfnuði sem ríkisstjórnin stefndi að. Ég held að fæstir átti sig á hvað frumjöfnuður er. Við getum tekið það fyrir í örstuttu máli. Frumjöfnuður er í raun það þegar gjöld og tekjur eru sett á borðið en allir aðrir liðir hafðir fyrir utan, eins og t.d. vaxtakostnaður. Ef við tökum sem dæmi heimili og segjum sem svo að foreldrarnir á heimilinu hafi fengið gríðarlega tekjulækkun, minna í laun en áður, og það eina sem þau gætu gert væri að skera niður útgjöld til matvæla og nauðþurfta þangað til það færi undir það sem þau hefðu í tekjur. Síðan kæmi heimilisfaðirinn og segði: Við höfum náð gríðarlega góðum árangri þarna. Ég held að hin hagsýna húsmóðir mundi segja: Já, en bíddu við, verðum við ekki að taka með í reikninginn skuldirnar af bílnum, afborganirnar af bílnum sem við keyptum, afborganirnar af húsinu, allan fyrirséðan kostnað sem á okkur lendir? Og þess vegna segi ég: Ræðum frekar um heildarjöfnuðinn, vegna þess að þar hefur ríkisstjórnin ekki náð markmiðum sínum og er búin að færa þau til ársins 2013. (Gripið fram í: Hálft ár.) Ræðum frekar um hagvöxtinn sem skapar fólki atvinnu, þar er ríkisstjórnin langt undir eigin markmiðum, og ræðum svo um verðbólguna sem hækkar lánin og hækkar afborganirnar hjá heimilunum. Þar hefur ríkisstjórninni algerlega mistekist, því miður.

Ég óskaði eftir að hér væri við umræðuna hv. þm. Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, sem fékk kauphækkun um daginn ásamt tveimur öðrum í meiri hlutanum, formanni fjárlaganefndar og hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, sem mér skilst að sé orðinn vara-varaformaður fjárlaganefndar. Ég held að þetta séu meiri launahækkanir en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Ég held við ættum að ræða þetta hérna við gott tækifæri. Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn. Tölum um fyrirséð útgjöld, höfum þau með í dæminu. Og þá komum við að Sparisjóði Keflavíkur. Þar er fyrirsjáanlegur útgjaldaliður og það ekkert smá, upp á einhverja tugi milljarða. Hér hafa verið nefnd mörg dæmi um framkvæmdir sem stendur til að fara í á vegum hins opinbera en er hvorki að finna í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 né fjáraukalagafrumvarpinu sem við ræðum hér. Jafnvel þó að við höfum skrifað það niður á blað og séum sammála um að þessu þurfi að breyta sé ég þess mjög lítil merki. Ég held að vandinn liggi í því að framkvæmdarvaldið hefur í raun ægivald yfir lagasetningarvaldinu. Það er einfaldlega þannig.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór í andsvar við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson áðan. Það sem hann var að benda á var misræmi í upplýsingum varðandi fjármuni sem er eytt er í ESB-framkvæmdina og upplýsingum sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég hefði miklu frekar viljað heyra hv. formann fjárlaganefndar taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og segja: Þetta gengur ekki, þetta er í andstöðu við það sem við samþykktum í fjárlaganefnd. Ég mun beita mér fyrir því að laga þetta. Þetta hefði ég viljað heyra frá hv. þingmanni.

Við ræddum líka áðan lítillega þá staðreynd að Ríkisendurskoðun svaraði ekki beiðni frá mér um upplýsingar um laun fjárlaganefndarmanna fjögur ár aftur í tímann fyrir en einu og hálfu ári eftir að beiðnin kom fram. Það er líka grafalvarlegur hlutur. Ég virði afsökun Ríkisendurskoðunar. Þar segjast menn hafa staðið í þeirri trú að fjármálaráðuneytið hefði svarað. Ég hefði ekki sent fyrirspurn til Ríkisendurskoðunar ef ég óskaði eftir því að ráðuneytið svaraði mér. Ég sendi líka þessa fyrirspurn bæði á fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið. Ég hef sem fjárlaganefndarþingmaður skyldum að gegna, á okkur sem sitjum í fjárlaganefnd hvílir sú skylda að hafa eftirlit með þeim fjármunum sem við deilum út til almennings. Við höfum raunverulega eitt tæki til þess að hafa þetta eftirlit, það er ríkisendurskoðandi, enginn annar. Við verðum að treysta á hann. Hann hefur komið fram með margar mikilvægar upplýsingar sem hafa valdið fjaðrafoki í samfélaginu. Nærtækasta dæmið er Menntaskólinn Hraðbraut og sú meðferð fjármuna sem ég held að allir þingmenn taki undir að hafi ekki verið sem skyldi. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Ég minntist á það áðan að ríkisstjórnin hefði sjálf sett sér markmið. Hvert skyldi markmiðið hafa verið hvað varðar hagvöxt á árinu 2011? 4,4% hagvöxtur. Hagstofan er með hagvaxtarspá sem er töluvert undir þeirri tölu. Seðlabankinn spáir 1,6% og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lækkað sína spá.

Ég held að þegar allt er tekið saman sé árangur ríkisstjórnarinnar alls ekkert sérstakur. Þegar farið er yfir þetta og því velt upp á hvaða grunni hún starfar, hvernig gengi krónunnar er, hvernig sjávarútvegur okkar starfar, hvernig undirliggjandi hagkerfi við búum við, er árangur ríkisstjórnarinnar ekkert sérstakur. Hún hefur ekki staðið við þau markmið sem hún setti sér. Jú, varðandi frumjöfnuð, varðandi niðurskurð, en það er önnur umræða. Ég mundi svo sannarlega vilja eyða heilli ræðu í að ræða niðurskurð á heilbrigðisþjónustu úti um allt land og varðandi uppsagnir í kvennastörfum. Við ættum líka að ræða hér markmið um kynjaða hagstjórn sem er svona hægt og rólega að fjara út, það er svona rétt aðeins minnst á kynjaða hagstjórn, svona ýjað að því öðru hvoru að þetta sé eitthvað sem ríkisstjórnin sé að vinna að en hafi kannski ekki alveg gengið.

Samkvæmt frumvarpinu er hallinn á rekstri ríkissjóðs í ár ríflega 41 milljarður, fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir 37 milljarða halla, en þetta þýðir að útgjöldin munu aukast um 14 milljarða á meðan tekjurnar hækka um 10 milljarða á móti. Við horfum hér aðallega á afleiðingar kjarasamninga sem gerðir voru í sumar. Að sjálfsögðu þýðir þetta aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en það koma auðvitað líka tekjur af þessum auknu útgjöldum í formi aukinnar skattheimtu. En um leið og við tölum um aukin útgjöld upp á 14 milljarða vantar þarna inn fyrirséð útgjöld hvað varðar Sparisjóð Keflavíkur.

Af hverju skyldi það vera? Getur verið að ríkisstjórnin hafi ekki viljað fá þetta inn í þær tölur sem hún leggur nú á borðið fyrir Alþingi Íslendinga vegna þess að þá getur hún ekki sagt: Sjáiði, við stóðum okkur vel? Getur verið að það sé aðalástæðan fyrir því að við sjáum ekki þessar tölur núna í fjáraukalagafrumvarpinu? Ég held að þar liggi hundurinn grafinn vegna þess að þá liti þetta alls ekki vel út. Við erum ekki að tala um ófyrirséðan kostnað, við erum að tala um fyrirséðan kostnað á næsta leiti.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Við munum ræða þetta í fjárlaganefnd Alþingis. Ég tek undir það að nefndin er vel mönnuð. Það er komin viss reynsla hjá þeim sem þar sitja sem er vel. Þar er hróplegt ósamræmi hvað varðar kynjahlutföllin en því miður ákváðu Vinstri grænir að skipta út konu í staðinn fyrir karlmann og sjálfstæðismenn að skipta út konu í staðinn fyrir karlmann. Aðrir hafa setið þar í töluverðan tíma. Ég held að það skipti máli vegna þess að mér finnst bragurinn á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram vera nokkuð góður.

Við munum fara yfir þetta frumvarp í fjárlaganefnd. Ég tel að við munum sérstaklega í ljósi umræðunnar í dag fara yfir 6. gr. heimildina. Við erum sammála um að það þurfi að breyta henni og þrengja á einn eða annan hátt. Ég vona að það standi eitthvað á bak við þau orð. Það skiptir öllu máli að fjárlaganefndarmenn, þeir sem eru í meiri hluta, séu sjálfstæðir í störfum sínum og vinni fyrir Alþingi, ekki fyrir framkvæmdarvaldið, og láti það ekki trufla störf sín þó að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu formenn þeirra flokka sem þeir eru í og hafi hvað mest um það að segja hver framtíð þeirra verður á Alþingi. Við þurfum að styrkja Alþingi. Fyrir því liggur þingsályktun sem var samþykkt hér samhljóða en því miður hefur ríkisstjórnin ekki stigið mörg skref í þá áttina.