140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Tökum bara Sparisjóð Keflavíkur, við skulum hafa í huga að Fjármálaeftirlitið var búið að gera athugasemdir við ýmislegt sem sneri að þeim sparisjóði í september 2008. Frá þeim tíma hefur Fjármálaeftirlitið verið að fylgjast með rekstri þess sparisjóðs mjög gaumgæfilega. Samþykktir voru ársreikningar fyrir árið 2008, sem ég veit ekki til að neinn hafi vefengt, bæði fyrir Sparisjóð Keflavíkur og Byr sparisjóð. Og ég er að reyna að komast að því nákvæmlega hvað gerðist. Sá sem getur svarað því, og ég var að spyrja hér ákveðinnar spurningar, er hæstv. fjármálaráðherra. Ef þetta er rætt segir hæstv. fjármálaráðherra að við séum að gera hlutina tortryggilega. Það liggur fyrir að hæstv. fjármálaráðherra fór með þetta, það liggur hreint og klárt fyrir. Hann hefur hins vegar ekki einu sinni sýnt stofnefnahagsreikninginn enn þá, sem var samþykktur 2010 þegar menn voru að byggja nýjan banka á grunni þess gamla. Látum vera að útskýra hvernig stendur á því að þessar eignir eru ekki lengur til staðar, hafa minnkað svo gríðarlega og raun ber vitni.

Við skulum ekki gleyma því að á þessum tíma, þ.e. í bankahruninu, voru settir nýir bankar í stað þeirra gömlu. Þær eignir sem menn eru búnir að vinna, og þær hafa margar hverjar verið að aukast mjög mikið — því er algjörlega öfugt farið þarna. Maður hlýtur að spyrja: Hvernig stendur á þessu? Af hverju geta menn ekki fengið stofnefnahagsreikning þessara banka? Af hverju geta menn ekki fengið ársreikninga þessara banka? Af hverju liggur þetta ekki fyrir? Þegar við leggjum fram þessar spurningar, af hverju svarar hæstv. ráðherra þeim ekki?