140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir að fara hér yfir sinn hluta í fjáraukalagafrumvarpinu sem ég tel að margir aðrir hæstv. ráðherrar ættu að taka til fyrirmyndar. Ég þakka honum sérstaklega fyrir það.

Hann kom inn á þær aukningar sem hafa orðið hjá velferðarráðuneytinu sem eru rúmir 14 milljarðar á þessu ári, þ.e. sem koma inn í fjáraukalagafrumvarpið, sem að stærstum hluta skýrist af kjarasamningunum, af hækkun bótaflokka og því sem hæstv. ráðherra fór yfir. Hæstv. ráðherra fór líka yfir það sem hefur gerst með atvinnuleysisbætur og annað. Mig langar að spyrja hæstv. velferðarráðherra að því hvort hann hafi áhyggjur af því hversu lítið bil er á milli atvinnuleysisbóta og lægstu launa — ég ætla þó að taka sérstaklega fram að allir sem missa atvinnuna eiga samúð mína alla — en ég velti fyrir mér í ljósi staðreynda hvort þurfi að skoða það sérstaklega þegar orðinn er svo lítill munur á lægstu launum og atvinnuleysisbótum og hvort hæstv. ráðherra hafi sérstakar áhyggjur af því eða áhyggjur yfir höfuð.

Það eru mýmörg dæmi um það, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þegar verið er að ráða fólk í fiskvinnslu eða ráða fólk í vinnu í sláturhúsum þarf að flytja inn útlendinga til þeirra starfa á sama tíma og atvinnuleysi er hér í sögulegu hámarki. Í ljósi þessara staðreynda vil ég spyrja hæstv. velferðarráðherra um það hvort hann hafi áhyggjur af því að það sé hugsanlega of lítið bil á milli lægstu launa og atvinnuleysisbóta og það sé oft og tíðum þannig að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum hafi jafnvel meiri ráðstöfunartekjur en þeir sem vinna lægst launuðu störfin. Ég ítreka enn og aftur, svo það fari ekki á milli mála, að allt það fólk sem missir atvinnuna (Forseti hringir.) og vill sárlega vinna á samúð mína alla.