140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það hvort herða beri eftirlitið þá er ástæða til að taka það fram að virkniúrræðin sem boðið er upp á, t.d. það að innan þriggja mánaða skuli kalla alla í einhver úrræði eða koma þeim í einhverja virkni, eru einmitt til þess að fylgjast með þessu. Menn verða að mæta á námskeið og þeim er gert að taka þátt í ákveðinni vinnu. Ég held að það skipti mjög miklu máli af mörgum ástæðum, bæði félagslega og líka til að hindra misnotkun á kerfinu.

Ég held að almennt verðum við að gefa okkur það og ég veit að það er þannig að fólk vill vinna, það vill fá vinnu og þess vegna er auðvitað besta úrræðið að reyna að koma því þannig fyrir að við getum farið að bjóða vinnu og við þurfum auðvitað að gera það eins og við mögulega getum. Eftirlitið hefur verið hert, m.a. varðandi svarta starfsemi, heimsóknir í fyrirtæki sem hefur verið átak á vegum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sem ber að fagna. Við eigum auðvitað að halda áfram að gefa þau kláru skilaboð, við eigum að gera það sem stjórnmálamenn, það á að gera alls staðar í samfélaginu: Við ætlum að tryggja að fólk hafi sómasamlega afkomu en við ætlumst líka til þess að menn misnoti ekki kerfið, svindli ekki á því, og við eigum aldrei að tala slíkt upp. Það gera nefnilega sumir og tala þannig að það sé eðlilegt að fólk reyni að svindla á kerfinu. Það er ekki eðlilegt. Það á að tala þannig að við ætlumst til þess með öryggiskerfið, tryggingakerfið okkar, að við nýtum það þegar við þurfum á því að halda en við eigum að fordæma það þegar það er misnotað á kostnað samfélagsins og menn reyna að komast hjá því að bera ábyrgð á því að við getum boðið sómasamlega afkomu fyrir þjóðina í heild.