140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni og skal ekki lengja hana að ráði enda ekki þörf fyrir, ég hef svarað í andsvörum athugasemdum sem ég hef talið ástæðu til.

Tvennt vil ég nefna stuttlega, það er annars vegar það sem margir hv. þingmenn hafa komið inn á um hagvöxt og hagvaxtarhorfur, eðlilega, öllum er okkur það hugleikið. Það eitt held ég að við getum sagt með nokkuð mikilli vissu að hagvöxtur er genginn í garð og allar spár og allar mælingar á þessu ári staðfesta það. Nú síðast kom út hagspá Íslandsbanka, sem er væntanlega nýjasta tilraunin til að meta stöðuna í þessum efnum, dagsett í gær eða í dag. Nú man ég ekki hvaða dagur er, frú forseti, en ef það skyldi vera 13. október þá er það í dag, (EKG: 2011.) — 2011, ég þakka hjálpina. Í þessari hagspá Íslandsbanka kemur fram að íslenska hagkerfið hefur verið að rétta sig við eftir fjármálakreppuna sem hófst 2008. Hagvöxtur er kominn á ný eftir samdrátt síðustu ára, fjárfesting, neysla og útflutningur fer vaxandi og þeim sem eru að störfum fjölgar. Vextir eru sögulega lágir, raungengi krónunnar lágt og kaupmáttur launa vaxandi. Á móti þessu eru kerfislæg vandamál í íslensku hagkerfi mörg. Skuldsetning heimila, fyrirtækja og hins opinbera er mikil, virkni fjármálamarkaðarins takmörkuð og traust á helstu stofnunum hagkerfisins lítið. Þá er mikið atvinnuleysi og vaxandi langtímaatvinnuleysi eitt af stærstu vandamálunum. Þessu til viðbótar hrannast upp óveðursský á erlendum mörkuðum um þessar mundir. Ég tek undir þessa greiningu hagdeildar eða hagspá Íslandsbanka í öllum aðalatriðum, hún er mjög nálægt því mati sem ég hef á stöðunni.

Ef við lítum örlítið á spárnar sem fyrir liggja þá spá allir helstu aðilar vaxandi einkaneyslu í ár og næstu árin. Fyrir árið í ár spáir Íslandsbanki liðlega 3% vexti einkaneyslu og Hagstofan sömuleiðis en Seðlabankinn nokkru meiri eða um 3,7%. Hagvaxtarspárnar eru þannig að Íslandsbanki spáir nú 2,5% hagvexti, Seðlabankinn nokkuð meiri hagvexti eða 2,8–2,9% og Hagstofan sömuleiðis 2,5%. Ef við lítum á fjárfestingarspárnar er Íslandsbanki aðeins svartsýnni en bæði Seðlabankinn og Hagstofan en allir aðilar spá þó 8–16% aukningu fjárfestingar á þessu ári. Ég held að það sé sæmilega tryggt að við erum á þessu ári að landa viðsnúningi í hagkerfinu og vöxtur er genginn í garð.

Hins vegar hafa menn rætt nokkuð heimildarákvæði um Sparisjóð Keflavíkur og þau mál sem honum tengjast og sömuleiðis Byr. Ég vil segja það eitt að með þau mál hefur verið farið algerlega í samræmi við lög og ekki síst neyðarlögin og það er á þeim grundvelli sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið allar þær stjórnsýsluákvarðanir sem þar koma við sögu. Ég held að hv. þingmenn eigi að hafa í huga að þar liggur það vald. Fjármálaeftirlitið er gerandinn og leiðandi aðili í þeim efnum. Bæði er það svo að Fjármálaeftirlitið veitir fjármálastofnunum starfsleyfi, hefur eftirlit með því að þær uppfylli skilyrði og eftir atvikum innkallar þau starfsleyfi eða yfirtekur starfsemina ef svo ber undir. Hlutverk fjármálaráðuneytisins í þessum efnum er það eitt að vera tilbúið og stofna viðtökufélag, nýtt fjármálafyrirtæki, banka eða sparisjóð, ef þarf að taka við innstæðum úr föllnu fyrirtæki á grundvelli neyðarlaganna og aðgerða Fjármálaeftirlitsins í því sambandi. Það höfum við gert í þeim tilvikum sem á það hefur reynt. Þar af leiðandi hefur Fjármálaeftirlitið fengið í sinn hlut að stofna þessi viðtökufélög með lágmarksframlagi í öllum tilvikum sem þarf samkvæmt lögum til að stofna fjármálafyrirtæki. Þannig hefur það verið gert í tilviki stóru bankanna, Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs að stofnað hefur verið nýtt viðtökufélag með lágmarksframlagi, tæpum 900 millj. kr. Í framhaldinu hefst svo ferli sem miðar að því að ljúka samningum milli kröfuhafa og hins nýja fjármálafyrirtækis og endurfjármagna starfsemina. Það ferli hefur verið eins í öllum tilvikum og heldur stjórn sem er sett hinu nýja fjármálafyrirtæki utan um eignina á meðan það tímabil varir. Í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur voru það rúmir tíu mánuðir frá 22. apríl 2010 til 5. mars 2011.

Hér hefur verið farið nákvæmlega eins að í þessum tilvikum á grundvelli þeirra laga sem um þetta fjalla og mér er ekki kunnugt um annað en að starfað hafi verið eftir þeim og þau verið virt. Þá verður að hafa í huga að gefið er svigrúm af hálfu Fjármálaeftirlitsins til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu, ná samningum og tryggja endurfjármögnun starfseminnar þannig að eiginfjárhlutföll séu uppfyllt.

Menn spyrja: Hvernig stendur á því að svo dapurlega var komið í rekstri Sparisjóðs Keflavíkur sem raun ber vitni? Menn hafa fyrir sér þær miklu afskriftir sem voru á eignasöfnum stóru bankanna þegar þau voru flutt yfir í nýju bankana og það gefur ákveðna leiðsögn um það hvers mátti vænta almennt í fyrirtækjum sem störfuðu við sambærilegar aðstæður. Það er mikill munur auðvitað á þeim fyrirtækjum sem hafa farið þá leið og hinum sem hafa ekki farið hana og við því mátti þar af leiðandi búast að afskriftarþörfin yrði mikil hjá sparisjóðum eða fjármálafyrirtækjum sem ekki höfðu komist í þrot og ekki höfðu fengið sambærilega niðurfærslu á eignasöfnum sínum og stóru bankarnir fengu þegar eignir þeirra voru fluttar yfir, samanber hina margfrægu umræðu um svigrúmið sem ætti þá að vera til staðar til þess að færa niður skuldir. Í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur virðist ljóst að margir samverkandi þættir hafi gert það að verkum að staðan er jafndapurleg og raun ber vitni og einhver sú versta sem við höfum staðið frammi fyrir þegar verulega vantar upp á að heildareignir dugi á móti tryggðum innstæðum. Í fyrsta lagi hlutu almennar afskriftir að koma þar til eins og við sjáum stærðargráður um frá bönkunum. Í öðru lagi verður varla fram hjá því horft að útlánastarfsemin þarna hlýtur að hafa verið mjög áhættusöm og tryggingar í mörgum tilvikum lélegar. Annars gæti eignastaðan varla hafa farið eins illa og raun ber vitni. Í þriðja lagi bið ég hv. alþingismenn að hafa í huga að á þessu svæði eru miklir erfiðleikar, þar er fjárhagsstaða margra aðila mjög erfið, atvinnuleysi mikið og erfiðleikar hafa verið þar um þó nokkurt skeið þannig að á einu meginstarfssvæði sparisjóðsins eru miklir erfiðleikar og undirliggjandi veikleikar sem líklega má ætla að hafi áhrif á það að eignasöfnin eru í verra ástandi en ella væri. Þetta og margt fleira skýrist sjálfsagt þegar þau kurl verða komin til grafar, þar á meðal og ekki síst eftir að rannsókn verður lokið á afleiðingum hrunsins eða hlut sparisjóðanna í þeim þegar til kastanna kemur.

Að lokum gildir sú yfirlýsing sem gefin var strax haustið 2008 um að þannig yrði farið í gegnum hremmingar fjármálakreppunnar hér á landi að allar innstæður yrðu tryggðar. Sú yfirlýsing var gefin út, samkvæmt henni var starfað þegar stóru bankarnir komust í þrot og henni hefur verið framfylgt síðan, enda væri lítið jafnræði í því að gera það ekki þegar verið er að takast á við síðustu stóru vandamálin sem eru beintengd hruninu. Hvað þessi yfirlýsing á eftir að kosta ríkið þegar upp verður staðið er því miður ekki hægt að fullyrða um á þessu stigi og það er ekki hægt að útiloka að sá kostnaður komi að einhverju leyti fram víðar en í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur. En þessi yfirlýsing var gefin. Hún var mikilvæg og var ekki síst gefin til þess að tryggja að ekki yrði áhlaup á bankakerfið sökum þeirrar óvissu sem upp kom haustið 2008 og til að verjast því að almenningur óttaðist um innstæður sínar og tæki þær út úr bönkunum, sem hefði gert alla úrlausn þessara mála enn þá erfiðari. Það má auðvitað deila um margt í þessum efnum en það sem var gert var gert og þá verður að vinna úr hlutunum á grundvelli þess. Þessi yfirlýsing er grundvöllur þessara aðgerða til viðbótar við neyðarlögin og þá aðferðafræði sem þar var mótuð. Það verður unnið samkvæmt því og það er samkvæmt bestu vitund verið að vinna úr þessum málum. Reynt er að lágmarka tjón og ábyrgð og skaða ríkisins í öllum tilvikum, það fullyrði ég. Síðan verðum við að sjá hvernig reikningarnir líta út að lokum þegar öll kurl eru komin til grafar.