140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætlega flutt ræða hjá hæstv. ráðherra en hann kemst ekkert hjá því að svara spurningum og segja frá hvernig er í pottinn búið. Ég ætla að lesa upp úr yfirlýsingu frá ríkisstjórninni 21. mars 2009. Þar segir, með leyfi forseta, að „erfiðleikum á íslenskum fjármálamarkaði sé að ljúka“ og það sé „sannfæring ríkisstjórnarinnar að ekki komi til frekari lokana íslenskra innlánsstofnana“. Þetta var 21. mars 2009.

Hæstv. ráðherra heldur því fram núna og hefur fram til þessa haldið því fram að eðlilegt sé að hann fari með eignarhlutinn en ekki Bankasýslan Hann heldur því fram núna að hann hafi ekkert komið að þessu, það hafi verið Fjármálaeftirlitið.

Ég spurði hæstv. ráðherra fyrst munnlega í nefnd, síðan sendi ég skriflega fyrirspurn sem ekki enn hefur verið svarað og ég bið þá hæstv. ráðherra að svara þeirri spurningu. Fram kom í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu 15. október 2010, með leyfi forseta:

„… verður eign Byrs sparisjóðs enn í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins í samstarfi við slitastjórn Byrs sparisjóðs þar til slitastjórnin kallar eftir honum. Miðað er við að það gerist innan tveggja ára.“

Ég vek athygli á ,,í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins“. Síðan kom fram hjá FME að þetta væri ekki heimilt því að slitastjórnin gæti ekki verið eigandi bankans.

Ég er búinn að spyrjast fyrir um þetta munnlega og skriflega. Ég hef ekki fengið svar. Þetta er yfirlýsing fjármálaráðuneytisins og staðfestir að það sem hæstv. ráðherra var að segja um að þetta kæmi honum ekkert við er ekki rétt og það er óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra var að leppa þarna fyrir kröfuhafa.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra enn og aftur: Hvernig má það vera að þessar fjármálastofnanir hafi verið hér um margra mánaða og í rauninni ára skeið (Forseti hringir.) starfandi án þess að (Forseti hringir.) uppfylla lögbundin hlutföll (Forseti hringir.) eigin fjár? (Forseti hringir.)