140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar yfirlýsing var gefin í þessum efnum á útmánuðum 2009 í kjölfar þess að þrjár stórar fjármálastofnanir, ef ég man þetta rétt, fóru í þrot var það einfaldlega mat þeirra aðila sem að þeim aðgerðum komu og þeirra sem höfðu þá farið yfir stöðu mála í fjármálakerfinu að þar með væri vonandi því versta lokið. Það var byggt á greiningu á ástandinu eins og það blasti þá við. Síðan leið ár þar til að því kom aftur því miður að tvær meðalstórar fjármálastofnanir þraut örendið. Þannig blasir það nú við.

Hv. þingmaður leggur mér þau orð í munn að ég hafi sagt áðan að ég bæri enga ábyrgð í þessum efnum og þetta kæmi mér ekki við. Þetta er skáldskapur hjá hv. þingmanni eins og allir heyrðu sem hlustuðu á mál mitt. Ég fór nákvæmlega yfir það hvert hlutverk hvers og eins hefði verið í þessum efnum, fór nákvæmlega yfir það sem snýr að fjármálaráðuneytinu við svona aðstæður, að stofna viðtökufélagið og setja því stjórn til þess að til staðar sé aðili til að taka við innstæðunum sem verið er að bjarga og koma í öruggt skjól. Þetta hefur verið gert eins í öllum tilvikum. Sá hlutur liggur fyrir og aðkoma okkar að því og ábyrgð. En starfsleyfi fjármálastofnana eru hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég átta mig á því að hv. þingmanni þykir þetta miður því að hann vildi helst að ég bæri ábyrgð á öllu heila klabbinu því að þá hefði hann meiri efnivið til þess að reyna að lemja á mér með. (GÞÞ: Æ, æ, æ!) En lög og reglur eru eins og þær eru og það er alveg sama hvaða snúninga hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tekur á því. Fjármálaeftirlitið veitir fjármálafyrirtækjum starfsleyfi, tekur af þeim starfsleyfið eða yfirtekur starfsemina ef svo er að skipta, tekur allar stjórnvaldsákvarðanirnar sem því eru samfara.

Hlutur fjármálaráðuneytisins er sá sem ég hef farið rækilega yfir og á honum ber ég ábyrgð og stend fyrir. Við undirbúum aðgerðir af slíku tagi ef þær eru óumflýjanlegar með því að hafa viðtökuaðilann kláran. Ef þetta er ekki fært beint (Forseti hringir.) yfir í aðra starfandi fjármálastofnun er stofnuð viðtökustofnun með lágmarksframlagi (Forseti hringir.) til þess að taka við innstæðunum.