140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt að þeir verða að spyrja ansi oft sem aldrei heyra svörin, sem ekkert gera með það þegar þeim er svarað. Þeir verða að spyrja og spyrja út í hið óendanlega. Það angrar mig ekki nokkurn skapaðan hlut þó að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eyði í það tíma sínum að spyrja endalaust sömu spurninganna sem búið er að margsvara. Það er vandamál hv. þingmanns ef hann annaðhvort heyrir ekki svörin eða skilur þau ekki. Það er bara þannig.

Það er algerlega á hreinu og liggur fyrir að eignarhlutirnir í nýju viðtökufjármálastofnununum eru hjá fjármálaráðuneytinu meðan unnið er að endurfjármögnun þeirrar starfsemi eins og var gert í tilviki stóru bankanna, (Gripið fram í: Það var ekki …) eins og var gert í tilviki sparisjóðanna meðan Seðlabankinn vann að endurfjármögnun þeirra. Verði þeir eignarhlutir varanlegir, sé búið að ganga frá samningum og eignarhluturinn klár, færist hann til Bankasýslunnar eða þá að hann fer aðra leið ef viðkomandi fyrirtæki er selt eða rennur saman við annan aðila.

Það er alveg rétt eins og lýst var yfir á sínum tíma að þetta var í vörslu og umsjá fjármálaráðuneytisins eftir að Byr hf. hafði verið stofnað. Á þeim tíma voru viðræður afstaðnar við slitastjórn gamla Byrs sparisjóðs um að þeir mundu að uppistöðu til fjármagna nýja bankann með því að breyta kröfum sínum í hlutafé og fjármálaráðuneytið hélt á hlutnum á meðan. Það hefur legið fyrir allan tímann. Því miður, frú forseti, telur hv. þingmaður sig vera að uppgötva einhvern sannleika sem allir nema hann hafa vitað í tæpt eitt og hálft ár.