140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemst ekki hjá því að svara spurningum. Allir sem hlustuðu á orð hans heyrðu að fyrirspurn minni, sem er nánar tiltekið nr. 14 af skriflegum fyrirspurnum sem ég sendi hæstv. ráðherra, hefur ekki enn verið svarað frekar en flestum þeim sem ég lagði fram. Hæstv. ráðherra, sem hefur farið mikinn og talað um að það sé nú æskilegt að þing og þjóð séu upplýst um hina og þessa hluti, sýnir þinginu enn og aftur fullkominn hroka og telur að hann sé í þeirri stöðu að hann þurfi ekki að svara þeim fyrirspurnum sem til hans er beint. Ég ætla enn og aftur að lesa þá fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. ráðherra. Þá vísa ég í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu frá 15. október 2010, en þar segir:

„Hlutur ríkisins í Byr hf. verður 5,2% en 94,8% hlutur verður eign Byrs sparisjóðs en í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins í samstarfi við slitastjórn Byrs sparisjóðs þar til slitastjórnin kallar eftir honum. Miðað er við að það gerist innan tveggja ára.“

Fram hefur komið hjá FME á fundi viðskiptanefndar að kröfuhafar, slitastjórn, geti ekki orðið eigendur að bankanum. Spurt er: Af hverju var samkomulag gert þegar ljóst var að kröfuhöfunum, slitastjórnum, var ekki heimilt að eiga banka?

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað.

Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki svarað því hvernig banki í umsjón hans og vörslu gat starfað. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra finnst þetta sniðugt (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að hann hafi verið …

(Forseti (ÁI): Forseti mælist til þess að menn hafi ekki samræður sín í milli í salnum.)

Virðulegi forseti. Ég var ekki með samræður við einn eða neinn. Ég vakti athygli á því, sem ég held að sé mjög mikilvægt, að almenningur fái að vita að hæstv. ráðherra tekur þessu af fullkominni léttúð. Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra þræti ekki fyrir það en ef það er misskilningur getur hann svo sannarlega leiðrétt hann.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvernig það mætti vera að bankar sem eru í umsjón og vörslu hans uppfylli ekki lagaskilyrði. Þeir starfa hér og stofna útibú í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir sem verða að uppfylla lagaskilyrði. Hvernig það má vera? Síðan eru ýmsar aðrar fyrirspurnir sem hver og einn getur séð því að það eru opinber gögn, þ.e. fyrirspurnir og svör, sem hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til að svara.

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji sig vera í því umhverfi að hann komist upp með að svara ekki spurningum sem beint er til hans og sem honum ber skylda til að svara. Það breytir ekki staðreyndum mála og það breytir því ekki að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessum spurningum. En það breytir því heldur ekki að á endanum mun þeim verða svarað, hvort sem það verður hæstv. ráðherra sem gerir það eða einhver annar, vonandi í nánustu framtíð.