140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þótt velferð dýra snerti marga hjartastrengi er það hryggileg staðreynd að málaflokknum hefur ekki verið gert hátt undir höfði í íslenskri þjóðmálaumræðu og því síður stjórnsýslu. Því sem næst eina opinbera birtingarform málaflokksins er í gegnum þau tilfelli sem rata í fjölmiðla og varða dýr sem hafa þurft að þola vanlíðan, þjáningar eða dauða af manna völdum, grimmd ókunnra hugleysingja eða jafnvel eigenda sinna. Ég vil trúa því að flestir Íslendingar vilji sjá dýr njóta þeirrar meðferðar og nærgætni sem ætti að vera sjálfsögð í siðmenntuðu þjóðfélagi. En í skugga allra okkar bestu væntinga hefur ill meðferð á dýrum því miður fengið að hreiðra um sig. Við þekkjum flest dæmi úr þjóðmálaumræðunni sem varða bæði búfé og heimilisdýr. Um þau níðingsverk ætla ég ekki að fjölyrða að þessu sinni en það blasir við að við verðum að sameinast um að gera betur

Það hefur lengi verið til vandræða að engin heildstæð löggjöf hefur gilt um dýravelferðarmál. og valdmörk ráðuneyta og stofnana hafa verið óskýr. Dýravelferð sem slík hefur þannig hvorki fengið þann sess sem henni ber í gildandi löggjöf né í framkvæmd hennar. Ég tel að allir sem innan þessa málaflokks starfa viðurkenni að hér þurfi sannanlega að gera betur.

Því ber að fagna að sett hefur verið í gang vinna við að móta heildstæða löggjöf um dýravelferð. Drög að slíku frumvarpi voru kynnt á vormánuðum. Þar er leitast við að taka á ýmsum ágöllum, svo sem stjórnsýslulegri vistun málaflokksins, og er stefnt að því að hann falli sem heild undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Einkum og sér í lagi eru lögð drög að sterkari og áhrifameiri þvingunarúrræðum og viðurlögum við brotum. Það er von mín að þessum málum verði fylgt eftir af festu, að afsláttur verði í engu gefinn frá sjálfsögðum réttindum dýra og afgreiðsla Alþingis endurspegli vilja þjóðarinnar um gagngerar endurbætur og siðvæðingu málaflokksins.

Ég tel þær skipulagsbreytingar sem frumvarpsdrögin bera með sér til bóta, en ég vil hnykkja á nokkrum atriðum og inna hæstv. ráðherra svara á hans sýn í málaflokknum.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það eru mikilvægar forsendur fyrir því að markmið nýrra dýravelferðarlaga nái fram að ganga, að leyfisskylda sé meginreglan fyrir dýrahaldi, einnig í landbúnaði, og að leyfi fylgi reglulegt opinbert eftirlit. Eins og dæmin sanna munu ábyrgðar- og eftirlitsaðilar að öðrum kosti ekki hafa nauðsynlega yfirsýn og því síður úrræði til að bregðast við því sem miður fer. Ég vil undirstrika það og inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu hans hvað varðar leyfisskyldu, eftirlit og viðurlög.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um hvernig mál standa er varðar gildistöku III. kafla laga, nr. 143/2009, sem snýr að breytingum á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og taka á að óbreyttu gildi 1. nóvember næstkomandi. Vill hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að áðurgreindum lagakafla verði breytt á þann veg að búfjár- og dýraeigendum á landinu öllu verði af hálfu ríkisins tryggð fullnægjandi dýralæknisþjónusta, þjónusta sem sé að lágmarki af samsvarandi gæðum og sú þjónusta sem héraðsdýralæknar hafa veitt til þessa?

Síðast en ekki síst vil ég koma inn á lykilatriði í málaflokknum í heild en það er stefnumótanir er varða verksmiðjubúskap sem í sinni nöturlegustu mynd er kerfisbundin, lögleg en siðlaus og algjörlega óásættanleg meðferð á dýrum. (BirgJ: Heyr, heyr.) Málaflokkur þessi er svo stór og viðamikill á alþjóðavísu að um hann þyrfti alveg sérstaka umræðu og að mörgu er þar að hyggja. Þessi mál snúast um okkur öll sem neytendur og hvort við leggjum einungis fram þá kröfu að matvæli séu ódýr en okkur sé nær sama hvaðan og hvernig þau eru til komin, eða hvort við gerum kröfur um góðan og siðlegan aðbúnað dýra í lífi jafnt sem á dauðastund.

Þetta er jafnframt spurning um hvort okkur sé nær sama um slæma meðferð lands, mengun frá stórbúum og aukna lyfjanotkun í búfjárhaldi. Pressan á alþjóðavísu hefur nær öll verið á einn veg, að hámarka gróða og lágmarka kostnað. Það er áríðandi að stórefla vitund almennings um þessi efni því að ég vil trúa því og tel að fólk almennt vilji að við förum vel með dýr í hvívetna, en of lítil umræða fer fram um þessi efni og því er meðvitundin yfirleitt of lítil.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér stefnumótun til framtíðar í þessum efnum. Hvernig telur hæstv. ráðherra að hann geti beitt sér fyrir reglum og umhverfi (Forseti hringir.) sem fyrirbyggi að ómannúðlegur verksmiðjubúskapur skjóti hér rótum til frambúðar? Við getum og eigum að vera til fyrirmyndar í þessum (Forseti hringir.) efnum. Þá verðum við að setja málaflokkinn í forgang og byrja strax að taka til hendinni. Ég inni hæstv. ráðherra eftir sýn hans (Forseti hringir.) til framtíðar í þessum efnum.