140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir, við þurfum svo sannarlega að veita velferð dýra athygli. Til að byrja með vil ég segja eitt. Ég held að við séum í sjálfu sér öll sammála um verkefnið sjálft sem er að reyna að tryggja sem best dýravelferð í landinu. Ég fagna þeirri endurskoðun sem nú stendur yfir á þeirri löggjöf. Ég er líka alveg sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að dýraeigendur vilji almennt umgangast dýr sín með velferð þeirra í huga. Það er vilji þeirra sem eiga dýr, hvort sem það eru bændur eða aðrir, að fara vel með þau og ég held að skynsamlegt sé hjá okkur að ganga út frá þeirri forsendu.

Það breytir hins vegar ekki því að til eru brotalamir, sumar þeirra mjög slæmar. Við þekkjum ýmis slík dæmi sem hafa ratað í fjölmiðlana. Því miður eru til einstaklingar sem ekki hyggja að þessari grundvallarskyldu dýraeigenda, að fara vel með dýrin sín.

Vandinn sem við höfum staðið frammi fyrir þegar slík tilvik koma upp er tvíþættur. Annars vegar stjórnsýslulegs eðlis. Löggjöfin sem um er að ræða er tvenns konar og heyrir undir tvö ráðuneyti og tvær stofnanir. Það býr auðvitað til flækjustig sem þvælist fyrir mönnum þegar á að grípa inn í svoleiðis aðstæður.

Í öðru lagi hefur líka komið fram að skortur er á úrræðum. Menn geta kært til lögreglunnar en það hefur reynst mjög tafsamt. Það er líka hægt að beita vörslusviptingu sem er auðvitað mjög afdrifarík aðgerð og hefur líka ýmis vandamál í för með sér.

Ég vil þó vekja athygli á því að reynt hefur verið að beina meiri athygli að þessum málum. Matvælastofnun sem fer með þau hefur látið mér í té lista og ef við skoðum tölurnar (Forseti hringir.) kemur greinilega fram að aukin áhersla er lögð á velferð dýra. Vandinn er hins vegar sá að mörgum þeirra mála sem vísað hefur verið til lögreglunnar er ekki lokið og það segir okkur að úrræðin eru bæði tafsöm og ekki nægjanlega (Forseti hringir.) skýr.