140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka innilega fyrir þessa umræðu. Við sem búum hér á þessu landi viljum oft líta á okkur sem dýravini en því miður virðist það ekki gilda um öll dýr, því sláandi fréttir um dýraníð og illa meðferð á búpeningi hafa verið mjög áberandi undanfarið. Mig langar t.d. að spyrja hæstv. ráðherra hvernig stendur á þeirri staðreynd að í núgildandi lögum mega dýralæknar einir gelda grísi en allir vita þó að það eru alltaf starfsmenn svínabúa sem sjá um geldingarnar. Fær þetta lögbrot enn að viðgangast? Ef svo er, ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að tekið verði á þessu augljósa lögbroti eigi síðar en nú?

Mér leikur jafnframt forvitni á að vita hvernig eftirliti með réttri meðferð búpenings verði háttað og hvaða refsingu megi beita fyrir brot í nýrri löggjöf um dýravernd. Verður settur lagarammi um meðferð á dýrum við slátrun? Verður tryggt að þau þurfi ekki að þjást að óþörfu?

Síðan langar mig að spyrja. Lítið hefur verið rætt um hvaða reglur og eftirlitsaðferðir munu eiga við þá sem t.d. rækta dýr, svo sem hunda og ketti. Hver verður krafan um aðbúnað dýranna í nýrri löggjöf?

Þá langar mig að spyrja hvort hv. ráðherra hafi kynnt sér rannsóknir Árna Stefáns Árnasonar, en hann beinir sjónum sínum sérstaklega á meðferð á kjúklingum, mjólkurkúm og grísum.

Fyrst ég hef nokkrar sekúndur í viðbót langar mig jafnframt að taka undir það sem komið hefur fram, að ein af meginástæðum illrar meðferðar á dýrum er hvernig við erum sem neytendur. Við getum ekki bæði ætlast til góðrar meðferðar á dýrum og hámarksarðsemi af afurðinni. Við verðum að velja að borga meira fyrir kjötið eða (Forseti hringir.) velja illa meðferð á dýrum. Ég kalla eftir meiri umræðu (Forseti hringir.) um þetta mál.