140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög góð. Það er dálítið erfitt að koma upp í lokin á henni, það er búið að segja svo mikið.

Ég fagna eins og aðrir því að ný dýraverndarlög séu í pípunum því að löggjöfina þarf vissulega að styrkja. Það er líka mikilvægt að fara eftir lögunum og nota þær valdheimildir sem til staðar eru og láta ekki þá sem fara illa með dýr komast upp með það.

Það er eitt sem lítið hefur verið tæpt á, það eru svokallaðar hvolpaverksmiðjur sem gagnrýndar hafa verið víða erlendis, sem eru einhvers konar verksmiðjubú þar sem hundar eru framleiddir. Því miður virðist ýmislegt benda til þess að sá iðnaður þrífist hér að einhverju leyti. Þarna búa dýrin oft við hörmulegar aðstæður þar sem er þröngt um þau og þau eru höfð í búrum þar sem illa er þrifið. Svona bú eru gróðrarstía fyrir sjúkdóma og hundarnir eru stressaðir og án félagslegs samneytis við menn, sem er algjörlega nauðsynlegt ef hvolpar eiga að verða góð gæludýr.

Mig langar einnig að tala um ræktun á dýrum sem aðeins var tæpt á áður, einkum hundum og köttum sem eru ræktaðir út af einhverjum útlitseinkennum en þar er ræktunin oft komin út í algjörar öfgar. Hér á landi eru tegundir þar sem dýrin þurfa bæði að fá sæðingu og gangast undir keisaraskurð vegna þess að þau eru komin svo langt frá sínu náttúrulega formi að þau geta ekki eignast afkvæmi öðruvísi. Það finnst mér alveg hrikalegt. Arfgengir sjúkdómar í mörgum hundakynjum eru því miður að aukast mikið. Hér þarf líka heildarendurskoðun á hlutunum.