140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það gleymist oft í umræðu um árangur í ríkisfjármálum að þegar er búið að færa til tekjustofna, m.a. frá sveitarfélögunum í landinu með hækkun á tryggingagjaldinu. Þegar tryggingagjald var hækkað — sveitarfélögin eru annað stjórnsýslustig — þá færði ríkið milljarða í ríkissjóð og tók þá í raun og veru af tekjum sveitarfélaganna sem sinna ekkert síður mikilvægari grunnþjónustu en ríkisvaldið oft og tíðum.

Við megum heldur ekki gleyma því að fyrir fram voru teknir 3,6 milljarðar í tekjuskatt af stóriðjufyrirtækjunum sem á að byrja að endurgreiða þegar ríkisstjórnin fer frá. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á þessum tölum og þessum staðreyndum þegar þeir gera upp og ræða þann árangur sem hefur náðst í ríkisfjármálum.

Ég fagna þeim tillögum sem hér eru lagðar fram og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælti fyrir og ég tel að margt í þeim muni einmitt leiða okkur á þá (Forseti hringir.) braut að gera ríkissjóð hallalausan.