140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurt er um kostnað. Allar miða þessar tillögur að því að auka tekjur, ekki að auka kostnað ríkisins. Það sem við hljótum að hafa lært af reynslu síðustu þriggja ára, ef við höfum lært eitthvað af fjárlagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, og það sem við höfum séð aftur og aftur, er að skattahækkana- og skattflækjustefnan hefur ekki skilað auknum tekjum. Hærri prósenta hefur ekki skilað auknum tekjum heldur minni tekjum, svo að einfaldara skattkerfi er til þess fallið að auka tekjurnar, ekki að draga úr þeim. Í því samhengi má vísa til fjölmargra erlendra dæma þar sem menn hafa borið saman ólíka stefnu í skattamálum. Ég nefni sem dæmi Kanada þar sem menn einfölduðu og lækkuðu skatta í tíð Chrétiens, þess ágæta frjálslynda miðjumanns. Það leiddi til verulegrar tekjuaukningar fyrir kanadíska ríkið.

Það hefur líka sýnt sig að þrepaskiptingin er ekki hagkvæm, hún er ekki besta leiðin til að jafna kjör og hámarka verðmætasköpun. Hún dregur þvert á móti úr vinnuhvötinni og þar með verðmætasköpuninni og skaðar fyrir vikið samfélagið allt í leiðinni. Þess vegna er persónuafslátturinn og hækkun hans hagkvæmari leið í samfélaginu. Hv. þingmaður hélt því fram að 60–70% landsmanna borguðu lægri skatta nú en áður. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að tekjurnar hafa dregist mjög saman. Fólk fær svo miklu minna borgað núna. Kjör fólks hafa rýrnað og þess vegna eru skattgreiðslurnar lægri, það er af minnu að taka.