140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar allir eru með lægri tekjur en þeir voru með fyrir nokkrum árum, komast auðvitað fleiri í þann hóp sem borga lægri skatta. Það er ekki flóknara en það. En persónuafslátturinn gagnast hlutfallslega mest þeim sem minnstar hafa tekjur. Það er líka mjög einfalt dæmi sem þarf ekki að flækja.

Af því að hv. þingmaður virðist líta á það sem sérstaka áhættu að einfalda skattkerfið þá nægir bara að skoða reynsluna af hinni leiðinni, skattahækkana- og skattflækjuleiðinni. Það má bera þetta saman við að vera í kafi í hlýju vatni og vera að kafna en þora ekki að fara upp til að draga andann af því að menn eru hræddir um að það sé kalt. Það er einfaldlega ekki valkostur að halda áfram á núverandi leið. Menn verða að komast upp og ná að grípa andann, anda að sér súrefni. Hagkerfið þarf að fá súrefni og það gerist ekki með þeirri skattstefnu sem hér er rekin.