140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska formanni Framsóknarflokksins og hv. þingmanni til hamingju með að hafa lagt fram þessar tillögur. Ég verð að segja að ég held að ég sé sammála öllum tillögunum, en til að hafa varann á mér skulum við segja nær öllum. Mér finnst tillögurnar sem lúta að breytingum á skattkerfinu merkilegar og ég held að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hitti akkúrat naglann á höfuðið með því að leggja fram þessa tillögu fyrir hönd Framsóknarflokksins. Það verður að einfalda skattkerfið. Þessi þrepaskipting sem komið var á er algerlega meingölluð og veldur mikilli óhagkvæmni í kerfinu. Jafnaðarmenn halda að þeir séu góðir við einhverja með því að vera með þrepaskipt skattkerfi, en eins og svo oft áður er það byggt á misskilningi hjá þeim. Í dag eru 90% allra skattgreiðenda í öðru skattþrepi. Það eru einungis 10% sem ná fyrsta skattþrepi eða síðasta skattþrepinu þannig að 90% allra landsmanna á vinnumarkaði eru í öðru skattþrepinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér skattkerfið. Sér hann fyrir sér flatskattakerfi líkt og var áður en vinstri menn fóru að krukka í skattkerfið (Forseti hringir.) eða vill hann sjá það öðruvísi?